139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, ekki síst varðandi mikilvægi þess að það sé gott jafnvægi á fjölmiðlamarkaðnum milli þeirra aðila sem þar starfa, við séum með gott og öflugt almannaþjónustuútvarp en ekki síður öfluga einkamiðla þannig að það séu einmitt fleiri en færri sem segja þjóðinni fréttir af samfélagsmálum og því sem er að gerast í þjóðfélaginu á hverjum tíma.

Ég held að við deilum sömuleiðis, og það er m.a. ástæðan fyrir breytingunni að fara úr því að setja á fót sérstaka stofnun um að fylgja eftir ákvæðum laganna og breyta því í stjórnsýslunefnd, og það er nákvæmlega gert til að koma til móts við áhyggjur manna af því að þetta yrði of kostnaðarsamt. Við höfum verið með útvarpsréttarnefnd til margra ára sem hefur haft í kringum 10 milljónir á ári í fjárveitingar og gert er ráð fyrir því að fjölmiðlanefndin hafi 33 milljónir á ári til ráðstöfunar.

Ég held að við getum ekki sagt að þetta séu stórkostlegar fjárhæðir í heildarsamhenginu. En ef við erum sammála um það, eins og mér heyrðist á máli hv. þingmanns, að mikilvægt sé að vera með heildstæða fjölmiðlalöggjöf sem setur ákveðinn ramma um þessa mikilvægu starfsemi, hljótum við að vera sammála um að einhver aðili þarf að tryggja að farið sé eftir þeim leikreglum sem lagt er upp með, t.d. varðandi framferði einstakra aðila á auglýsingamarkaði. Við erum sammála um að það er mikilvægt að fara vel í gegnum eignarhaldið, skipuð hefur verið nefnd sem er að störfum og hún á að skila innan sjö vikna þannig að það er ekki verið að vísa því eitthvað langt inn í framtíðina. Núna fyrir 1. júní, ef breytingartillaga meiri hlutans nær fram að ganga, eiga að liggja fyrir tillögur í frumvarpsformi um eignarhaldið. Og varðandi samkeppnismálin þá verður tekið á þeim í frumvarpinu um RÚV sem vonir standa til að verði lagt (Forseti hringir.) fram til kynningar í næsta mánuði.