139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi ráðherrann vísa ég bara beint í nefndarálit minni hlutans. Þar segir:

„Þá eru ráðherra mennta- og menningarmála færð mikil völd yfir fjölmiðlun með heimild til setningar reglugerða.“

Það er það sem ég var að vísa í.

Við erum t.d. núna — sem er ágætt dæmi um það hvernig menn geta farið með völd, af því að menn hafa ýmis völd m.a. bara með ummælum sínum — með ríkisstjórn sem í fullri alvöru talar um þjóðnýtingu. Ég held að fyrir flesta útlendinga t.d. hljómi það bara eins og Hugo Chávez. Það er nefnilega varhugavert að færa völd til ráðherra og í of miklum mæli.

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að hér séu góð ákvæði varðandi eldvegginn og sjálfstæði ritstjórna, en ég man eftir því að fjölmiðlamenn töluðu um að þetta væri bara ekkert vandamál þegar hér var talað um fjölmiðlalögin á sínum tíma, um eignarhaldið. Þá fullyrti held ég hver einasti fjölmiðlamaður að hann hefði aldrei orðið fyrir neinni pressu frá eiganda fjölmiðla. Nú getur vel verið að þetta sé bara alrangt. En ég er ekki að mæla gegn þessu ákvæði neitt sérstaklega, ég er bara að segja að besta vörnin eru margir fjölmiðlar. Besta vörnin er að fjölmiðill gagnrýni fjölmiðil. Besta vörnin er ef fjölmiðill segir: Hér er fjölmiðill að draga taum einhvers — ef hann er að gera það — eins og eiganda og annars slíks. Það er besta vörnin sem við höfum.

Og leikreglurnar, virðulegi forseti, hv. þingmaður fór ágætlega yfir það, að það vantar að fara yfir þær. Hann nefndi að nefnd um auglýsingamálin hjá Ríkisútvarpinu eigi að skila niðurstöðu eftir sjö vikur. Hann nefndi að það ætti eftir að fara yfir eignarhaldið, það á að koma fljótlega, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Hann nefndi að það ætti eftir að koma frumvarp um Ríkisútvarpið. Byrjum á þessu, byrjum ekki á því að búa til fjölmiðlalögreglu. Byrjum á því að setja leikreglur.