139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski rangnefni að segja að ég komi í andsvar í þessu máli við hv. þm. Pétur H. Blöndal vegna þess að við erum sammála um að þetta frumvarp sé stórkostlega gallað. En hv. þingmaður nefndi að hann vildi sjá frumvarpið ganga til viðskiptanefndar til frekari umfjöllunar milli 2. og 3. umr. Mér finnst sjálfsagt að þetta mál fái frekari yfirferð í nefndinni og kannað verði hvort meiri hlutinn sé reiðubúinn til að draga það til baka eða ýta því til hliðar eða gera á því breytingar svo frumvarpið gangi yfir höfuð upp.

Ég heyrði að hv. þingmaður vildi að farið yrði yfir iðgjaldahluta frumvarpsins. Hafði hv. þingmaður einhverjar frekari breytingartillögur í huga eða önnur áhersluatriði sem hann óskaði sérstaklega eftir að nefndin tæki til skoðunar? Ef svo er væri gagnlegt að fá útlistun á því í stuttu andsvari hver eru helstu atriðin sem hv. þingmaður vill að könnuð verði milli 2. og 3. umr.