139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:07]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en svo að yfirlýsingin gæti verið ólögleg eða að hún sé líklega ólögleg og ef hún er ekki ólögleg er hún a.m.k. ómarktæk, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að hún styðji allar innstæður í landinu. Það eru tvö vafaatriði sem hv. þingmaður metur við þessa yfirlýsingu. Þá spyr ég hv. þingmann: Er þá ekki eins gott að við gerum eitthvað annað? Er þá ekki eins gott að við förum að safna í sjóð til að geta þá brugðist við ef einhver banki fer yfir um? Ef menn horfa til þess að takmarka ábyrgð ríkisins, er þá ekki eins gott að safna meiri peningum, hraðar, og takmarka ábyrgð innstæðna svo við séum ekki að dekka allar innstæður? Það er akkúrat það sem þetta frumvarp gengur út frá.

Ríkissjóður er ekki í ábyrgðum fyrir sjóðnum eins og kemur fram í 3. gr. frumvarpsins, en hv. þingmaður svaraði því í raun og veru ekki hvernig hann vildi taka á málinu 7. apríl 2011 ef við horfum til þess að í fyrsta lagi mun samevrópskur sjóður taka við árið 2014. Er þá ekki betra að við förum að safna í sjóð og reynum að horfa til þess að losa okkur undan þessari yfirlýsingu, hvort sem hún er marktæk eða ómarktæk, lögleg eða ólögleg? Eitthvað verðum við að gera. Við viljum að bankakerfið safni í sjóðinn sjálft en að við sitjum ekki uppi með þann freistnivanda sem til staðar er í bankakerfinu í dag um að fari bankinn á hausinn hlaupi ríkið undir bagga, allan stóra baggann, en ekki bara ákveðinn hluta innstæðna, þ.e. lágmarkstrygginguna, og ekki bara undir innstæður einstaklinga heldur undir innstæður stórra fyrirtækja, lífeyrissjóða o.s.frv.

Ég ítreka spurningu mína: Hvernig mundi hv. þingmaður leysa vandann ef hann væri í meiri hluta viðskiptanefndar, sæti uppi með gjaldþrota sjóð, með yfirlýsingu ríkisstjórnar og frumvarp til laga um að safna hraðar og betur, og skilgreina nánar?