139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður áttar sig ekki á því hvað er í þessu frumvarpi um ríkisábyrgð, þar sem skýrt er kveðið á um að ríkið eigi að sjá til þess að greiðslur berist í sjóðinn ef ábyrgðin fellur á hann, erum við í slæmum málum.

Hvað vil ég gera? Við erum búin að tala um það núna í tvö ár. Til að byrja með verður að útskýra það fyrir forsvarsmönnum Evrópusambandsins að þetta gangi ekki upp. Þetta gengur bara ekki upp og það sér hver maður. Ef við erum neydd til þess af vinaþjóðum okkar að fara þessa gömlu leið, sem fúnkerar ekki einu sinni hjá þeim, er skárra að hafa eina deild og ef menn vilja fá meira inn í þann sjóð er skárra að hækka iðgjaldið. En við erum ekki einu sinni komin á þann stað að hæstv. ráðherra sé farinn að tala máli Íslands í þessu máli.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er ekki orðin að lögum, ég held að við getum verið sammála um það. Ef menn vilja hins vegar koma með aðra yfirlýsingu þar sem þeir segja að þeir ætli að takmarka það sem þeir mundu vilja gera er það auðvitað í höndum flokksbræðra og samstarfsmanna hv. þm. Magnúsar Orra Schrams í ríkisstjórn.

Það er algjörlega fráleitt að vera með þau nauðhyggjurök að þessi leið sé eina leiðin. Við eigum eftir að ákveða hvað við ætlum að gera við sparisjóðakerfið. Við eigum eftir að ákveða hvað við ætlum að gera við bankakerfið, við eigum eftir að ákveða hvernig við ætlum að vinna úr þessum skuldavanda. Núna eru bankarnir of stórir, þeir skila ekki arði. Ástæðan fyrir því að þeir skila „hagnaði“ er sú að eignasafnið er að verða betra, eins og það heitir, vegna þess að menn eru ekki að afskrifa á fólk og fyrirtæki í landinu. Það þýðir að næsta áratug verður stór hluti fyrirtækja og heimila í landinu í skuldafangelsi. Í ofanálag ætla menn að koma með þennan tryggingarsjóð sem augljóslega gengur ekki upp. (Forseti hringir.) Sér hv. þingmaður þetta ekki?