139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:17]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef haldið fjölmargar ræður til að skýra stöðu þessa máls. Ég ætla að reyna að gera eina tilraun til að svara því sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir um að hér hafi ekki verið útskýrt hvernig koma eigi bönkum til varnar og það sé verið að plata fólk eins og hv. þingmaður komst að orði.

Ég heyri ekki betur á samflokksmönnum hans en að við séum ekki bara að plata fólk heldur sé yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hvort tveggja ólögleg og ómarktæk, ef ég skil hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins rétt. En ímyndum okkur dæmi.

Við leggjum til að við söfnum a.m.k. 7 milljörðum kr. á ári í nýjan sjóð. Í óbreyttu kerfi munum við ekki safna í einn einasta sjóð. Ímyndum okkur að einn stór banki falli. Væntanlega mun eitthvað koma upp í skuldbindingar úr þrotabúi viðkomandi banka, einhverjar eignir hlýtur hann að eiga á móti skuldbindingum sínum og vegna þess að við höfum farið í mjög ítarlegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, Seðlabanka, eftirlit o.fl. þá eru eignir bankanna í miklu betra ásigkomulagi í dag, við höfum miklu betri tilfinningu fyrir því hvað þeir eiga í raun og veru en við gerðum í gamla bankakerfinu okkar. Svo er ljóst að innstæðutryggingarsjóður mun koma með það sem vantar upp á. Takist okkur að safna verulegri upphæð í sjóðinn mun viðkomandi bankastofnun að einhverju leyti geta sótt í innstæðutryggingarsjóðinn.

Ef okkur hefur ekki tekist að safna nægum fjármunum í sjóðinn mun ríkissjóður láta fara fram ískalt hagsmunamat á því hvort hann telji rétt að viðkomandi banki fari á höfuðið eða hvort ríkið eigi kannski að koma bankanum til bjargar því það getur haft í för með sér veruleg efnahagsleg áföll ef einn hinna stóru þriggja banka fer á höfuðið á næstu 10 árum.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann, sem kannski getur orðið efnahags- og viðskiptaráðherra eða fjármálaráðherra sem gerir þetta ískalda hagsmunamat í kolli sínum, mun hann láta einn af hinum þremur bönkum fara eða væri kannski gott að eiga einhverja peninga í sjóði eins og hér er lagt til?