139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:35]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem líður nú að lokum umræðunnar langar mig að draga saman í þessu síðasta andsvari hver skoðun mín er á frumvarpinu og hvers vegna ég tel hyggilegt að það verði að lögum hið allra fyrsta.

Núverandi staða er ekki góð. Við búum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem, eins og fram hefur komið í umræðunni, á sér ekki lagastoð, er að einhverju leyti ómarktæk að mati sumra þingmanna og frá henni þurfum við að komast. Ekki viljum við hafa ríkisábyrgð á starfsemi bankanna, það leiðir til freistnivanda.

Þess vegna er að mati sumra hyggilegt að stofna nýjan tryggingarsjóð og safna í hann fjármunum frá bankakerfinu þannig að það standi sjálft skil á þeim fjármunum. Skilgreiningunni sem er á innstæðum verði breytt þannig að ítarlega sé farið í gegnum hvaða innstæður beri að vernda og hverjar ekki, en í dag verndum við allar innstæður, bæði lögaðila og frá einstaklingum. Það verði safnað hraðar í sjóðinn, greitt inn í hann ársfjórðungslega og þá hærri upphæðir en áður og hluti upphæðarinnar verði tekinn af áhættusækinni starfsemi bankanna. Með því er hvatt til að bankarnir fari í starfsemi sem ekki er jafnáhættusækin.

Með þeim hætti erum við að reyna að byggja upp nýjan innstæðutryggingarsjóð í þessu landi vegna þess að eins og við erum sammála um þurfum við að hafa innstæðutryggingarkerfi, það er bara spurning um útfærsluna. Málið hefur verið til umræðu hjá viðskiptanefnd síðan haustið 2009. Það hefur tekið þó nokkuð miklum breytingum í nefndinni þar sem nefndarmenn hafa lagst á eitt um að styrkja frumvarpið og gera það betra. Ég held að við séum komin að ákveðnum endamörkum þar og að nú sé mál að linni. Nú þurfum við að gera frumvarpið að lögum til þess að styrkja íslenskt bankakerfi, til þess að eiga meiri möguleika á að komast út úr höftum, til þess að við eigum meiri möguleika á því að losna undan þeirri ríkisábyrgð á íslensku bankakerfi sem nú gildir og losað bankastarfsemi undan þeim freistnivanda sem hún býr við.