139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

Þjóðminjasafn Íslands.

648. mál
[16:58]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þessi fjögur frumvörp. Ég þakka fyrst og fremst hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir ágæta yfirferð hennar yfir efnisatriði þessara mála. Víða var komið við og margt þykir mér vera til bóta. Ég vil nefna þar nokkur atriði, sérstaklega varðandi lögin um menningarminjar. Tel ég mikla gustuk að sameina þær tvær stofnanir sem hafa farið með hlutverk í tengslum við minjavörslu, þ.e. Fornleifavernd ríkisins og stofnunarhluta húsafriðunarnefndar. Það mun væntanlega leiða til ákveðinnar hagkvæmni og hagræðingar þegar fram líða stundir þó að það geti tekið einhver missiri eins og við þekkjum að láta það skila sér í krónum og aurum í ríkisreikningi.

Það að styrkja stjórnsýsluna á þessu sviði, eins og á sviði safnamála, held ég að sé afar mikilvægt. Menn hafa lært af ákveðinni reynslu sem hefur skapast á undanförnum áratug frá því að lögin um minja- og safnamál voru samþykkt árið 2001. Ég tel það sérstaklega jákvætt að brugðist sé við ábendingum sem komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um íslensk muna- og minjasöfn árið 2009 um að einfalda þurfi styrkjakerfi safnanna, setja fastmótaðar reglur um styrkveitingar og auka eftirlit með styrkjum. Ég tek heils hugar undir það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, að það fyrirkomulag sem hefur verið við lýði varðandi hina svokölluðu safnaliði á vegum fjárveitingarvaldsins eigi ekkert erindi við framtíðina. Ég veit raunar að hv. fjárlaganefnd er að vinna góða vinnu núna við að endurskoða það fyrirkomulag og ég geri mér góðar vonir um að það takist að finna á því farsæla lausn. Þessi flóra af söfnum er vissulega skemmtilegt þjóðareinkenni hjá okkur en við þurfum að tryggja að þeim fjármunum sem settir eru í söfnin sé vel varið. Ég fagna sérstaklega því nýmæli í lögunum um safnamál að tekið verði upp ákvæði um viðurkenningu safna, sömuleiðis að uppfylla þurfi skilyrði til að geta átt kost á opinberum styrkjum. Ég tel að þarna sé kominn vísir að ákveðnu gæðakerfi eða gæðavottun fyrir söfn á Íslandi sem er mikilvægt.

Sömuleiðis tel ég gagnlegt að haga málum með þeim hætti að skilgreint verði sérstakt ábyrgðarsafn á tilteknu sviði eða landsvæði sem sé ákveðin miðstöð á því safnasviði eða landsvæði sem um er að tefla í viðkomandi tilviki og þjóni því hlutverki að miðla ráðgjöf og væntanlega munum inn á sýningar þegar svo ber undir. Ég held að allar þreifingar í þá átt að auka samstarf á milli safna í landinu, t.d. með þessum hætti, séu mjög til bóta.

Ég ítreka þakkir til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir framlagningu þessara fjögurra frumvarpa og hlakka til þeirrar vinnu sem fram fer í hv. menntamálanefnd í kjölfar þess að fara í gegnum þessi mál.