139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

endurskoðun stefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að minna á að þeir samningar sem lagðir voru í dóm þjóðarinnar um helgina urðu þannig til að forustumenn allra flokka sameinuðust um að gera eina tilraun enn til að ljúka þessu máli með samningum og sameinuðust um að skipa samninganefnd, völdu saman formann fyrir þeirri nefnd, og þó að ekki styddu allir þingmenn stjórnarandstöðunnar niðurstöðuna að lokum var ferlið valdað af þverpólitísku samstarfi flokkanna og byggði að sjálfsögðu á þeim grunni sem stjórnvöld mótuðu strax haustið 2008 og Alþingi samþykkti 5. desember 2008, að það bæri að reyna að leysa þetta mál með samningum. Samkvæmt því var unnið allan tímann.

Nú liggur fyrir skýr niðurstaða í málinu. Ég held að ekki sé hægt að túlka hana öðruvísi en svo að það er ekki stuðningur við að ljúka þessu máli við samningaborðið fyrr en þá að genginn er dómur um ótvíræða skuldbindingu okkar og þá fer málið í þann farveg. Ég kannast ekki við að það sé rétt túlkun hjá hv. þingmanni að stefna ríkisstjórnarinnar hafi sérstaklega beðið hnekki, heldur var það sú stefna yfir höfuð að reyna að útkljá þetta mál við samningaborðið.

Varðandi áherslur að öðru leyti vill svo til að efnahagsáætlunin sætir endurskoðun og mun gera. Nýjar áherslur í þeim efnum birtast fyrir vorið. Gangi samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn áfram hnökralaust, eða vonandi hnökralítið, þrátt fyrir niðurstöðu helgarinnar lýkur því í lok sumars. Löngu fyrir þann tíma mun liggja fyrir sú efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld vinna eftir.

Að síðustu varðandi þessa 26 milljarða sem framsóknarmenn fundu um helgina veit ég ekki af þeim. Ég held að þeir séu ekki inni á bankabók hjá mér neins staðar. Veruleikinn er sá að það stóð til að greiða út alla fjármuni innstæðutryggingarsjóðsins og síðan hefði ríkið orðið að bæta við eftir atvikum því sem vantaði í vaxtagreiðslur. Hugmyndin var að draga á innstæðu ríkissjóðs í Seðlabankanum til að fjármagna (Forseti hringir.) þann kostnað.