139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

endurskoðun stefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ef það eru þó 6 milljarðar sem menn töldu sig hafa handbæra til að greiða vexti af Icesave hljóta menn að hafa 6 milljarða til að endurskoða efnahagsstefnuna og reyna að blása lífi í atvinnulífið ef það er vilji til þess. Það er auðvitað stefna í fleiri málum sem má velta fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt að endurskoða í ljósi þess sem hefur gerst á undanförnum dögum og kannski um helgina. Til að mynda má nefna að í ljósi ályktunar Framsóknarflokksins er staðan núna í Evrópusambandsmálinu sú að þrír flokkar hafa lýst því yfir að landinu sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, og þá má auðvitað velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að ríkisstjórnin hlusti á vilja þjóðarinnar, skoðanakannanir og þær yfirlýsingar sem hér eru komnar og endurskoði þennan þátt líka.

Ég hvet að lokum ráðherrann til að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt (Forseti hringir.) að snúa af þessari efnahagsbraut og setja hér atvinnustefnu í gang. Það er það sem hrópað er á í landinu (Forseti hringir.) og meiri hluti þjóðarinnar styður svo sannarlega.