139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

hagsmunir Íslands í Icesave-málinu.

[15:30]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram liggur niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-málið fyrir og það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur í þrígang verið gerð afturreka með málið. Það kemur síðan í ljós í framtíðinni hvert framhald málsins verður en áhöld eru um hvort mál verði höfðað gegn okkur og hvort Bretar og Hollendingar geta yfir höfuð haft uppi skaðabótakröfur á hendur Íslendingum. Hvað sem gerist og hvert sem framhald málsins verður er ljóst að nauðsynlegt er verja hagsmuni Íslendinga.

Ég hef miklar efasemdir um að núverandi ríkisstjórn hafi nægan trúverðugleika og sannfæringu til að verja hagsmuni Íslendinga í málinu í framtíðinni. Maður sem er borinn sökum velur sér ekki verjanda sem ekki er sannfærður um sakleysi hans og trúir ekki á málstaðinn. Hæstv. fjármálaráðherra hefur margoft lýst því yfir að hann vildi alls ekki að niðurstaðan varðandi meðferð Icesave-málsins yrði sú sem hún varð um helgina. Það var hans bjargfasta trú að fara ætti aðrar leiðir og samþykkja ætti þá samninga sem hann áður kallaði glæsilega og lýsti því yfir að hér færi allt norður og niður ef þeir samningar næðu ekki fram að ganga. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að niðurstaða helgarinnar væri sú versta sem þjóðin gat valið. Ég er ósammála þessum yfirlýsingum, ég tel að málstaður okkar Íslendinga sé góður. En ég velti því fyrir mér og spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji heppilegt með tilliti til hagsmuna þjóðarinnar að núverandi ríkisstjórn taki að sér að gæta hagsmuna Íslands í málinu í framtíðinni og halda uppi málstað sem hún hefur fram til þessa ekki haft neina trú á.