139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kostnaður við sölu Landsbanka Íslands o.fl.

546. mál
[16:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Forseti. Því er til að svara varðandi fyrri spurninguna um kostnað vegna sölu á Landsbanka Íslands að samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar nam beinn kostnaður af sölu Landsbankans árið 2003 rétt rúmum 204 millj. kr. á verðlagi þess árs. Framreiknað miðað við vísitölu neysluverðs fyrir febrúar 2011 nemur sá kostnaður nálægt 334 millj. kr. Beinn kostnaður við söluna nam sem sagt um 1,1% af söluandvirðinu. Töluverður kostnaður var bundinn við leit að erlendum kjölfestufjárfestum, eins og það var kallað, 2001, undirbúning og sölu til kjölfestufjárfestis 2002 og þóknun til Landsbanka Íslands sjálfs fyrir sölu á 20% eignarhlut ríkisins 2002.

Landsbanki Íslands fékk greiddar tæpar 130 millj. kr. sem söluþóknun og fyrir undirbúning sölunnar, HSBC- bankinn fékk greiddar rúmar 40 millj. kr. fyrir ráðgjöf, Rowen May lögfræðistofan fékk tæpar 12 millj. kr. fyrir lögfræðiaðstoð, KPMG tæpar 7 millj. kr. fyrir fjárhagslegt mat á bankanum og aðrir fengu minna. Hér er aðeins talinn upp sá kostnaður sem gjaldfærður var á ríkissjóð en töluverður kostnaður var einnig færður á Landsbankann sjálfan og beinn og óbeinn kostnaður vegna starfa ýmissa stjórnenda og sérfræðinga bankans varð þó nokkur. Það er því alls ekki allt talið til þó að sundurliðaðar séu þessar 334 milljónir sem þetta hefur kostað á núvirði í bókhaldi ríkisins.

Varðandi kostnað við störf þeirrar samninganefndar sem vann að gerð nýjustu Icesave-samninga, þ.e. kostnað sem fellur þá á tímann frá janúar 2010 og fram undir lok þess árs, er því til að svara að kostnaður sem við tengjum við störf núverandi samninganefndar um Icesave nam 369,2 millj. kr. samkvæmt fjárhagsbókhaldi ríkisins í lok febrúar á þessu ári. Kostnaðurinn sundurliðast á þann veg að greiðslur til fulltrúa samninganefndarinnar, þ.e. til lögfræðistofa sem samninganefndarmenn koma úr, nam 132,5 millj. kr., erlend aðkeypt sérfræðiþjónusta nam 233,6 millj. kr. og innlend sérfræðiráðgjöf, kynningarmál, prentkostnaður, þýðingar, ferðakostnaður o.fl. nam um 3,1 millj. kr. Þar gildir hið sama og í fyrra svarinu að ýmiss kostnaður annarra aðila er þar ótalinn, til að mynda umtalsverður kostnaður Alþingis vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og er þar einn reikningur frægari öðrum, launakostnaður sem borinn er af ráðuneytum og stofnunum og ýmiss annar óbeinn kostnaður.

Varðandi nánari sundurliðun á hinum stóru tölum má upplýsa að sundurliðun á kostnaði sem tengist samninganefndinni beint er í grófum dráttum eftirfarandi að til lögfræðistofunnar Cleary Gottlieb Steen & Hamilton, ef ég man rétt, þ.e. lögfræðifyrirtækis Lees Buchheits, formanns samninganefndarinnar, hafa verið greiddar 86.349.586 kr. Það er heildarþóknun til lögfræðistofunnar og er þar meðtalinn allur útlagður kostnaður, laun annarra starfsmanna en formanns samninganefndarinnar, ferðakostnaður og virðisaukaskattur væntanlega meðtalinn.

Til Don Johnsons ráðgjafa, fyrrverandi aðalframkvæmdastjóra OECD, hafa verið greiddar 16,8 millj. kr., til lögmannsstofunnar Juris, sem er lögmannsstofa Lárusar Blöndals, hafa verið greiddar 18,1 millj. kr. Gildir þar hið sama að það er að meðtöldum öllum útlögðum kostnaði, ferðakostnaði, aðstoð sem hann hefur notið á stofu sinni að meðtöldum virðisaukaskatti. Til lögmannsstofunnar Landslaga, sem er lögmannsstofa Jóhannesar Karls Sveinssonar, hafa með sama hætti verið greiddar 11,2 millj. kr. Rétt er að fram komi að þeir Guðmundur Árnason og Einar Gunnarsson hafa ekki fengið greitt fyrir störf sín í samninganefnd enda ráðuneytisstjórar tveggja ráðuneyta.

Sundurliðun á hinni erlendu sérfræðiráðgjöf er þannig að til lögmannsstofunnar Ashurst hafa vegna lögfræðikostnaðar verið greiddar 52 millj. kr., til Hawkpoint Partners er sérfræðiráðgjöf á árinu 2010 upp á 143 millj. kr. og til Hawkpoint Partners Ltd. er sérfræðiráðgjöf upp á 38 millj. kr. Sundurliðun á innlenda kostnaðinum upp á rúmar 3 milljónir sýnir eins og áður sagði að þar er fyrst og fremst um að ræða prentkostnað, þýðingarkostnað, sérfræðiaðstoð við útreikninga, útlagðan ferðakostnað, útlagðan fundarkostnað, útlagðan gistikostnað og ýmislegt smávægilegt.

Það má svo upplýsa í framhjáhlaupi, þó að ekki sé sérstaklega um það spurt, að kostnaður vegna fyrri samninganefndar um Icesave nam 77,5 millj. kr. og vógu þar langþyngst greiðslur til erlendra lögfræði- og ráðgjafarfyrirtækja.