139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kostnaður við sölu Landsbanka Íslands o.fl.

546. mál
[16:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér ræðum við fyrirspurn hv. þm. Björns Vals Gíslasonar til hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar sem báðir eru í Vinstri grænum. Þeir seilast sjö ár aftur í tímann til að láta fólk gleyma því sem er að gerast í dag. Þjóðin felldi á laugardag síðasta samkomulagið sem þessir háu herrar gerðu við Breta og Hollendinga. Þau samkomulög fóru síbatnandi en það fyrsta var þannig að vextirnir einir voru um 100 milljónir á dag og studdi hv. þm. Björn Valur Gíslason það af heilum hug. Þessir háu herrar láta íslenska launþega, íslenska skattgreiðendur, borga erlendum fjármagnseigendum tap þeirra. Þannig lítur það út. Þeir láta íslenskt verkafólk borga fyrir fjármagn úti í heimi. Maður spyr sig: Hvers lags ríkisstjórn er þetta? Er þetta vinstri stjórn?