139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kostnaður við sölu Landsbanka Íslands o.fl.

546. mál
[16:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Meðferð þessarar fyrirspurnar hefur verið með algerlega hefðbundnum hætti og reyndar veitti ég nú í grófum dráttum þessar upplýsingar í svari við óundirbúinni fyrirspurn í síðustu viku fyrir kosninguna til hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Rétt er að leggja áherslu á, og það kom reyndar fram áðan, að fullt samkomulag var um það milli forustumanna stjórnmálaflokkanna þegar samninganefndin var skipuð hvernig í hana var valið og að í henni yrði þekktur erlendur og reyndur samningalögfræðingur, Lee Buchheit, og vissulega kostar slík þjónusta mikið, sem og fulltrúi stjórnarandstöðunnar. Það var sömuleiðis samkomulag um að spara ekki til í bestu fáanlegu ráðgjöf, lögfræðilegri og efnahagslegri. Það má öllum vera ljóst að aðkeypt vinna reyndra erlendra lögfræði- og ráðgjafarfyrirtækja er mjög dýr og við eigum kannski ekki að venjast slíkum fjárhæðum í íslenskum veruleika. Alþingi þekkir þetta sjálft. Það ákvað að kaupa vinnu lögfræðistofunnar Mishcon de Reya nokkrum dögum fyrir jól. 2010. Ef ég man rétt var reikningurinn upp á 24 millj. kr.

Varðandi svar til umboðsmanns Alþingis hefur það þegar verið veitt og úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur einnig verið svarað og viðkomandi fjölmiðlum. Ekki náðist að vísu að svara fyrir lokun á föstudag þannig að slíkt svar fór í dag. Í kjölfarið verða fjölmiðlar eftir atvikum upplýstir ítarlegar eftir því sem spurningar þeirra gáfu tilefni til.

Rétt er þó að undirstrika að fjölmargir úrskurðir liggja fyrir um að ríkisbókhaldið sé utan gildissviðs upplýsingalaga. Samtímagögn í ríkisbókhaldi eru ekki opin fyrir upplýsingalögum. Allt öðru gegnir um stjórnarskrárvarinn rétt þingmanna samkvæmt 54. gr. stjórnarskrárinnar og algerlega í samræmi við það var undirbúið svar við fyrirspurn alþingismanns eftir að hún kom fram á þingi og viðkomandi fjölmiðlum gert ljóst að þeirri fyrirspurn yrði fyrst svarað á Alþingi.

Allra síðast vil ég segja, frú forseti, að þessar tölur eru auðvitað smáaurar borið saman við heildarkostnaðinn (Forseti hringir.) af hruni Landsbankans ef menn vilja fara út í þá umræðu. Hana er ég tilbúinn til að taka, t.d. líka við hv. þm. Pétur Blöndal.