139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

445. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp með fyrirspurn sem kviknaði í sjálfu sér í aðdraganda fjárlagagerðar vegna ársins 2011. Þá kom í ljós að ekki voru ætlaðir miklir fjármunir til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Mig langar aðeins að vitna í ársskýrslu Framleiðnisjóðs. Í inngangi stendur, með leyfi forseta:

„Framleiðnisjóður landbúnaðarins starfar samkvæmt lögum nr. 89/1966, með síðari breytingum.“

Þetta er sem sagt ekki alveg nýtt fyrirbrigði. Eins eru tekjur Framleiðnisjóðs eins og fram kemur hér í skýrslunni „starfsfé í samræmi við samning sem landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Bændasamtök Íslands gera samkvæmt búnaðarlögum, nr. 70/1998. Aðrar tekjur Framleiðnisjóðs eru vaxta- og umsýslutekjur“.

Það er því alveg ljóst að hér er verkefni sem ríkisvaldið kemur að með beinum hætti, bæði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og eins fjármálaráðherra. Það er merkilegt að á þessu ári eru ætlaðar 15 milljónir til sjóðsins sem hefur fengið 160, 170, 180 milljónir úr að spila á liðnum árum og svo á sjóðurinn að ganga á eigið fé. Komið hefur fram að á næsta ári eru hugmyndir um að sjóðurinn fái 25 milljónir og eigi jafnframt að ganga á eigið fé sem þá muni klárast.

Niðurskurðurinn á árinu 2011 er um 90% og í engu samræmi við það sem annars staðar hefur verið gert. Það hlýtur að vera nokkurt áhyggjuefni að menn skuli ganga svo djarft fram í sjóð sem fyrst og fremst er nýsköpunar- og þróunarsjóður fyrir atvinnugreinina. Ef maður skoðar aðeins í ársreikningum sjóðsins hafa á árunum 2009 og 2010 farið 60, 70, 80 milljónir til greina sem tengjast atvinnugreininni og rannsóknum og nýsköpun, ekki bara til bændanna sjálfra. Þar eru núna fyrirliggjandi margar umsóknir sem sýnir að menn eru hvergi að bugast í kreppunni, heldur vilja sækja fram í nýsköpun og þróunarstörfum. Aldrei hafa komið eins margar umsóknir frá bændum um jafnfjölbreytta atvinnusköpun víðs vegar um landið — og þá er sjóðurinn takmarkaður. Sjóðurinn hefur síðan valið að einskorða sig við úthlutanir til þeirra verkefna, en það þýðir að rannsóknar- og þróunarverkefni, m.a. á vegum Matíss, Landbúnaðarháskólans og annarra rannsóknargreina sem tengjast þessari atvinnugrein, fá ekki neitt. Það er dálítið öðruvísi en ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefur lýst yfir gagnvart öðrum atvinnugreinum, t.d. sjávarútvegi og iðnaði. Þar hefur verið lögð áhersla á að reyna að tryggja að nýsköpun og þróun (Forseti hringir.) haldi áfram, en hér virðist vera stöðvun.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hver er framtíðarstefna (Forseti hringir.) ráðherrans með Framleiðnisjóð landbúnaðarins?