139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

fækkun bænda.

551. mál
[16:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu og fyrirspyrjanda og ráðherra svörin.

Það er auðvitað ljóst að einmitt í ljósi Evrópusambandsreynslu Finna, sem bændasamtök og félög á vegum bænda hafa verið að kynna sér rækilega á síðustu árum, hafa menn dregið þann lærdóm af reynslu Finna að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan og það hafi því alvarlegar afleiðingar fyrir nær allar tegundir landbúnaðarins að ganga í Evrópusambandið. Til að mynda hefur það verið viðurkennt í skýrslum sem hafa komið til umræðu í þinginu að hið svokallaða hvíta kjöt, þ.e. alifugla- og svínarækt, mundi leggjast af en 50% af kúabúskapnum eigi það á hættu að falla niður. Það er einna helst að sauðfjárbændur gætu hugsanlega séð ekki afleita stöðu. Og nú síðast um helgina lýstu garðyrkjubændur því yfir að þeir teldu framtíð sinni best borgið utan Evrópusambandsins.

Tækifærin á Íslandi eru sannarlega til staðar en við megum ekki láta þau (Forseti hringir.) skemmast með því að glepjast inn í Evrópusambandið. Það er mjög skýr afstaða sem Bændasamtökin hafa tekið.