139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

fækkun bænda.

551. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er þörf. Það er út af fyrir sig ágætt að bera saman þróun í landbúnaði á Íslandi og í nágrannalöndum okkar og fyrir liggur nú að fækkunin í Noregi á þessum tíma hefur verið 19%, 21% í Finnlandi og 26% á Íslandi.

Mig langar í þessu ljósi að varpa fram spurningu til hæstv. landbúnaðarráðherra um það í hvaða færum hann telur að við sem stjórnvöld séum í þeim efnum að sporna mót þessari þróun. Er það e.t.v. eðlilegt og þarft að búum fækki og þau stækki í helstu greinunum, svo sem eins og sauðfjárbúum, kúabúum og svínabúum og eftir atvikum e.t.v. í loðdýrarækt og grænmetisrækt líka? Auðvitað verður svo að vera í landbúnaði eins og öðrum atvinnugreinum að við þurfum að huga að hagkvæmni og afkomu. Þess vegna langar þann sem hér stendur að vita hvort hæstv. landbúnaðarráðherra vilji sjá þá þróun að búum fækki og þau stækki og verði e.t.v. arðsamari fyrir vikið. Er það þróun sem hann er beinlínis andvígur? Og þá verður að spyrja: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér nýliðun í þessari mikilvægu stétt landsmanna sem útvegar jú landsmönnum mikilvæga fæðu? Erum við að hindra nýliðun í greininni t.d. með kvótasetningu á kúabúum og víðar eða telur hæstv. ráðherra að allt sé með felldu í þeim (Forseti hringir.) geira?