139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

þjónusta dýralækna.

552. mál
[16:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur og hæstv. landbúnaðarráðherra verða seint sammála um ágæti Evrópusambandsins. Reyndar telur sá sem hér stendur að mikil sóknarfæri séu fyrir landbúnaðinn að fara einmitt inn í Evrópusambandið en það er önnur saga.

Mig langar að koma, frú forseti, inn á málefni héraðsdýralækna sem eru að breytast en störf héraðsdýralækna verða lögð niður frá og með 1. nóvember 2011 og skulu þeir hér eftir eingöngu sinna opinberu eftirliti en ekki læknisþjónustu eins og þeir hafa gert til þessa. Töluverð fækkun verður í þeirra ranni fyrir vikið, þeim fækkar úr 15 í sex. Landinu verður skipt í sex svæði og einn héraðsdýralæknir verður á Suðvesturlandi, Vesturlandi, Norðvesturlandi, Norðausturlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Þetta eru sex svæði og hvert þeirra er eðli málsins samkvæmt mjög stórt. Hér er um að ræða grundvallarbreytingu á þjónustu héraðsdýralækna sem hafa verið mjög mikilvægir heima í héraði um langt árabil.

Menn hafa miklar áhyggjur af þessari breytingu og bændur víða um land telja að þetta geti haft minni þjónustu í för með sér. Hér er vitaskuld um mjög mikilvæga þjónustu að ræða og varðar bæði rétt bænda en ekki síður rétt dýranna, ef svo má að orði komast, að þeirra sé gætt með prýði og af fagmennsku og enginn afsláttur sé gefinn af þeirri þjónustu.

Ótti manna er m.a. sá að rekstrargrundvöllur sjálfstæðra dýralækna minnki eða jafnvel að fótunum verði kippt undan þeim víða um land, ekki síst í mjög víðfeðmum og fámennum byggðasvæðum. Eins muni e.t.v. fara svo að bændur muni í auknum mæli reyna að sinna þessu sjálfir ef svo fer að kostnaður við þjónustu dýralækna aukist mjög.

Hér eru því blikur á lofti og mig langar að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra:

1. Að hve miklu leyti mun opinber þjónusta dýralækna úti á landi skerðast þegar störf héraðsdýralækna hjá Matvælastofnun verða lögð niður, samanber boðaðar breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002?

Spurningar mínar eru fleiri svo sem:

2. Verða gerðar undanþágur á því að héraðsdýralæknir megi ekki sinna lækningum með fram opinberum eftirlitsstörfum?

3. Verða gerðar aðrar undanþágur vegna aðstæðna héraðsdýralækna á Íslandi svo sem gert hefur verið með innleiðingu annarra reglugerða frá Evrópusambandinu?

Þetta eru spurningar (Forseti hringir.) sem brenna mjög á bændum víða um land.