139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

þjónusta dýralækna.

552. mál
[17:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að dýralæknaþjónustan vítt og breitt um landið skiptir miklu máli og mikilvægt að grunnþættir hennar og grunnstarfsemi sé tryggð um allt land eins og hv. þingmaður rakti.

Fyrst ber þess að geta að frá og með 1. nóvember 2011 þegar þessar breytingar taka gildi með nýsettum matvælalögum munu starfa sex héraðsdýralæknar við jafnmargar umdæmisskrifstofur Matvælastofnunar, samanber fyrrgreind lög frá 1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Héraðsdýralæknar munu eingöngu sinna opinberum eftirlitsverkefnum. Ekkert liggur fyrir um að almenn dýralæknaþjónusta úti á landi muni skerðast við þessa breytingu.

Varðandi hvort gerðar verði undanþágur fyrir héraðsdýralækna þá er ráðherra heimilt, samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 66/1998, með síðari breytingum, að fela héraðsdýralækni ótímabundið að sinna almennri dýralæknaþjónustu á tilteknu svæði. Þessi heimild ráðherra fellur úr gildi 1. janúar 2015. Skilyrði fyrir slíkri tímabundinni ráðstöfun er að heilbrigði eða velferð dýra sé stefnt í hættu þar sem enginn dýralæknir fáist til að sinna almennri dýralæknaþjónustu á viðkomandi svæði. Þessari heimild verði því ekki beitt nema í ljós komi að skortur sé á almennri dýralæknaþjónustu og að önnur úrræði dugi ekki til að finna lausn á málum.

Þess ber einnig að geta að ólíklegt þykir að beita þurfi slíkri undanþágu í þeim umdæmum sem nú þegar eru hrein opinber eftirlitsumdæmi, þ.e. í Suðurlandsumdæmi sem verður Suðurumdæmi, Gullbringu- og Kjósarsýslum sem verður Suðvesturumdæmi og Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi sem verður Norðausturumdæmi. Það má í raun segja um hin þrjú nýju umdæmi sem verða Vesturumdæmi, Norðvesturumdæmi og Austurumdæmi að enn liggi ekki fyrir hverjir núverandi héraðsdýralæknar kjósi að starfa á þessum stöðum eða snúa sér að almennri dýralæknaþjónustu. Sú undanþáguheimild sem hér um ræðir á aðeins við um störf þeirra sex héraðsdýralækna sem starfa munu við umdæmisskrifstofurnar. Hafa ber í huga að samkvæmt skipan mála skulu þeir eingöngu sinna opinberum eftirlitsstörfum. Einnig er vandséð að þeir hafi tíma og möguleika á að sinna öðrum starfsskyldum en þeim sem fylgja starfi héraðsdýralæknis. Þeir munu ekki hafa yfir að ráða lyfjalager og heldur ekki þeim búnaði og tækjum sem þarf til að sinna almennri dýralæknaþjónustu. Því er farsælasta lausnin fólgin að finna aðrar leiðir til að tryggja dýralæknaþjónustu í hinum dreifðari byggðum.

Varðandi undanþágur bendir ekkert til að ástæða sé til að gera aðrar undanþágur vegna starfa héraðsdýralækna eftir 1. nóvember 2011. Hafa ber í huga að meginástæða þeirrar breytingar sem nú er að taka gildi er að opinberir eftirlitsaðilar skulu vera óháðir þeim sem eftirlit er haft með. Því er gerð sú krafa með lögum að héraðsdýralæknar sinni eingöngu opinberum eftirlitsstörfum. Eftirlitsdýralæknar sem starfa undir stjórn héraðsdýralæknis muni hins vegar hafa möguleika á að sinna almennri dýralæknaþjónustu og einnig eiga dýralæknar sem starfa við almenna dýralæknaþjónustu að geta sinnt tilteknum opinberum eftirlitsskyldum svo sem eftirliti í sláturhúsi. Matvælastofnun hefur þegar gert áætlun um hvernig verður staðið að þessum málum.

Síðan er það spurningin um hvaða hlutverk landshlutasamtök munu hafa við greiningu og ráðgjöf á breyttri dýralæknaráðgjöf úti á landi. Þá er rétt að taka fram að dýralæknar munu ekki sinna dýralæknaráðgjöf úti um land nema að því marki sem tengist almennri dýralæknisþjónustu á þeirra vegum.

Eins og fram kemur í 13. gr. laga nr. 66/1998 skal ráðherra hafa samráð við Dýralæknafélag Íslands, Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Matvælastofnun við ákvarðanatöku um hvar þörf er á opinberum greiðslum fyrir almenna dýralæknaþjónustu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið vinnur nú að tillögum um hvernig tryggja megi dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum í samræmi við 39. gr. laga nr. 143/2009. Verkefnið felst í því að skilgreina hvar þörf er á opinberri aðstoð, hver hún skuli vera og hvernig staðið verði að því að velja dýralækna sem hennar munu njóta. Í athugasemdum með frumvarpinu er einmitt vakin athygli á endurskoðunarákvæðum frá viðauka EES-samningsins um innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins.

Varðandi síðustu spurninguna, hvernig fámennum en víðfeðmum landsvæðum verður bætt upp skerðing á opinberri dýralæknaþjónustu eftir breytingarnar, þá hefur enn ekkert komið fram um að breyting á skipan umdæma og störfum héraðsdýralækna muni leiða til skerðingar á almennri dýralæknisþjónustu. Mikilvægt er samt að sem fyrst fáist niðurstaða um hvernig þessu skipulagi verði háttað og (Forseti hringir.) mun ég koma aðeins betur að því í seinni ræðu, frú forseti.