139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

raforkuöryggi á Vestfjörðum.

537. mál
[17:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Jafnvel á svona háskatímum þegar fátt er til þess að auka gleði manns kemur nú samt fyrir að mjög sérkennilegar tilviljanir og auðvitað bara tilviljanir verða þess valdandi að það færast yfir mann dálitlar brosviprur. Hér er ég að vísa m.a. til þess að 5. október árið 2009 lagði ég fram tillögu til þingsályktunar, þar sem meðflutningsmenn mínir voru þingmenn Norðvesturkjördæmis, um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Þremur vikum síðar setti hæstv. iðnaðarráðherra á laggirnar starfshóp sem átti að vinna að mjög sambærilegum hlutum, að vísu ekki alveg nákvæmlega þeim sömu en engu að síður starfshóp sem átti að vinna að verkefnum sem snúa að raforkuöryggi á Vestfjörðum. Ætlunin var að þessi nefnd skilaði af sér síðastliðið haust bráðabirgðaáliti sem kynnt yrði sérstaklega á Vestfjörðum í ágúst í fyrra. Það dróst og ég gagnrýni það ekki en þess vegna varð það mér tilefni til að leggja fram fyrirspurn. Þá fyrirspurn sem ég mæli nú fyrir lagði ég fram 23. febrúar á þessu ári og, viti menn, hálfum mánuði síðar var skýrslan kynnt, m.a. á fundum á Vestfjörðum. Þannig eru nú tilviljanirnar í lífinu og geta orðið þess valdandi að maður gleðst eða fer að líta svoleiðis á að í iðnaðarráðuneytinu sé starfrækt einhvers konar pöntunarþjónusta þegar ég legg fram mál sem snerta málasvið hæstv. iðnaðarráðherra.

Aðalatriðið er þó þetta: Nú er komin fram þessi ágæta skýrsla um orkuöryggi á Vestfjörðum, áhrif samkeppnisstöðu og atvinnuþróun. Í sjálfu sér þarf ég ekki að kalla eftir upplýsingum hæstv. ráðherra um meginatriði skýrslunnar; hún liggur fyrir og hefur legið fyrir á netinu frá 9. mars sl. Nefndin gerir ýmsar tillögur og m.a. um að ákveðin verði almenn viðmið um hámark rekstrartruflana og standist það ekki verði veittur afsláttur á þeirri þjónustu. Stutt er við þá hugmynd Landsnets að reisa sem allra fyrst 10 megavatta dísilrafstöðvar á Ísafirði sem kosta um 300 millj. kr. ef ég man rétt. Framtíðarmarkmiðið sem lagt er fram og er ákaflega brýnt er tvöföldun eða hringtenging vesturlínu og ýmislegt annað sem nefnt er í því sambandi.

Ég vek athygli á að við ræðum mikið alvörumál. Samfélagskostnaður sem Vestfirðir verða fyrir sökum rafmagnsleysis hefur verið áætlaður 400 millj. kr. á ári. Það er gríðarleg upphæð og er m.a. þess valdandi að við höfum átt erfitt með að laða til Vestfjarða ýmiss konar tækniþjónustu og starfsemi sem krefst mikils raforkuöryggis.

Því spyr ég hæstv. ráðherra einkanlega hvort hún taki ekki undir þær tillögur sem getur að líta í skýrslunni og með hvaða hætti (Forseti hringir.) þeim verði hrint í framkvæmd og þá hvenær.