139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kaup á nýrri þyrlu.

613. mál
[17:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir fyrirspurnina og að vekja máls á þessu mikilvæga málefni, þyrlukosti Landhelgisgæslunnar og þar með öryggismálum okkar.

Eins og hann gat um í máli sínu eru tvær þyrlur í landinu, aðra eigum við, TF-Líf, hina leigjum við, TF-Gná. Það stóð til á sínum tíma að leigja þriðju þyrluna og stendur enn til. Ráðist var í útboð síðastliðið haust en okkur hafa ekki borist tilboð sem þykja aðgengileg. En yrði viðbótarþyrla tekin á leigu má ætla að leigukostnaður á þyrlu ásamt tryggingum nemi um 220–300 millj. kr. á ári og er þá ótalinn rekstrarkostnaður.

Hv. þingmaður vék að samkomulagi sem við gerðum við Norðmenn á sínum tíma. Það mun hafa verið í nóvembermánuði 2007. Eins og hann gat um réttilega var ætlunin samkvæmt því samkomulagi að festa kaup á þremur þyrlum í samstarfi við Norðmenn á árinu 2013, en nú hefur verið tekin ákvörðun um tvennt: Í fyrsta lagi að við höldum okkur innan þessa samstarfs við Norðmenn um þyrlukaup. Við teljum mjög hagkvæmt að gera það, en í stað þess að kaupa þrjár þyrlur festum við kaup á einni þyrlu sem gæti komið til afhendingar á árunum 2017–2018. Ef við gerum það þurfum við að borga fyrstu greiðsluna á árinu 2013. Síðan er hugmyndin að samið verði um kauprétt á tveimur þyrlum til viðbótar og er hugsunin þá sú að geta breytt slíku kaupréttartilboði í fasta pöntun og að við getum eignast tvær þyrlur á árunum 2019–2020.

Það er fyrirheitna landið, að í landinu verði fjórar björgunarþyrlur. Þannig gætum við búið að öryggi á þann hátt sem við helst viljum.

Það eru áformin varðandi kaup á þyrlum. Síðan erum við að skoða áætlun til sex til níu ára sem ég mun gera grein fyrir í ríkisstjórninni á morgun. Við erum að þróa þessi áform áfram, þá að sjálfsögðu með hliðsjón af því sem Landhelgisgæslan telur hyggilegast. Vandinn er sá að rekstrarfé Landhelgisgæslunnar er að verulegu leyti háð sjálfsaflafé. Landhelgisgæslan hefur verið í verkefnum í Suðurhöfum og aflað talsverðra gjaldeyristekna með því móti en þar er ekki á örugg mið að róa. Það er óöryggi í þessu efni. Ég tel mjög heppilegt að það sé gert, vegna þess að það styrkir Landhelgisgæsluna, auk þess sem við öflum gjaldeyris með þessum hætti.

Þannig að svarið er þetta: Við stefnum að því að festa kaup á þyrlu sem kæmi til afhendingar á árunum 2017–2018. Við þyrftum að byrja að greiða inn á hana 2013 og síðan tvær til viðbótar á árunum 2019–2020. Eftir sem áður þurfum við að sjá til þess að að staðaldri séu þrjár þyrlur í landinu þannig að við verðum að leigja þyrlur og erum að vinna að því að fá þriðju þyrluna á leigusamningi. Það hafa verið viðraðar ýmsar hugmyndir í þessum efnum. Menn hafa séð að lífeyrissjóðir hafa verið að horfa á þennan kost að fjárfesta í þyrlu og þá leigja ríkinu. Ef það er á hagstæðari kjörum en þeim sem við fáum frá Norðmönnum er ekkert nema gott um það að segja. En þetta er með öðrum orðum staða mála.