139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, efling forvarna o.fl.

597. mál
[17:45]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fyrirspyrjanda, kynnti þáverandi heilbrigðisráðherra — sá sami, þ.e. hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson — í nóvember árið 2008 fyrsta hluta aðgerðaáætlunar í heilsustefnu heilbrigðisráðherra sem ætlað var að gilda fram í árslok árið 2011. Þess má geta að heilsustefnan sjálf var aldrei gefin út heldur aðeins inngangur hennar og fyrsti hluti aðgerðaáætlunarinnar. Ég hef skoðað þessa stefnu og tek heils hugar undir flest af því sem þar er sett fram.

Aðgerðaáætlun heilsustefnunnar var í góðu samræmi við og byggðist meðal annars á ýmsum verkefnum sem þegar voru í gangi, en fleiri verkefnum hefur verið ýtt úr vör síðan. Áætlað var að mæla í árslok 2009, eins og fram kom í framsögu eða fyrirspurn, hvort sett markmið hefðu náðst og setja ný markmið sem ná átti fyrir árslok 2011. Mælingarnar hafa fæstar verið framkvæmdar, í sumum tilfellum vegna þess að skynsamlegra hefur þótt að nýta starfsmenn í annað, eins og fram hefur komið hjá þeim sem voru ráðherrar eða starfsmenn áður en ég kom í heilbrigðisráðuneytið í september síðastliðnum, en margt hefur þokast í rétta átt.

Nú spyr hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hvernig hafi gengið að ná fram markmiðum sem sett voru fram í heilsustefnu ráðuneytisins frá 2008 og átti að ná fyrir lok árs 2009. Hann spyr hvernig hafi gengið:

„a. að funda með 50% heilsugæslustöðva og sveitarfélaga á landinu til að efla forvarnir og heilsueflingu í heilsugæslu og sveitarfélögum landsins.“

Svarið við þeirri spurningu er að ekki liggja fyrir upplýsingar um hve margir fundir hefðu verið haldnir með heilsugæslustöðvum og sveitarfélögum í árslok 2009. Lýðheilsustöð hefur veitt ráðgjöf í tengslum við heilsueflandi skóla og heilsueflandi vinnustaði eins og lýsing á markmiðunum kvað á um og hefur ásamt Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og landlæknisembættinu unnið fjölmörg verkefni er miða að forvörnum og heilsueflingu í heilsugæslu í sveitarfélögum landsins. Ný heimasíða um forvarnir var opnuð árið 2009, sem sagt 6h.is, þar sem helstu markhópar eru foreldrar, unglingar og börn. Í byrjun árs 2010 var opnuð vefsíðan frjals.is fyrir fagfólk um leiðir til að aðstoða skjólstæðinga við lífsstílsbreytingar.

„b. að fræða 25% heilsugæslustöðva um geðheilbrigði og geðrækt til að efla þekkingu á meðal heilbrigðisstarfsmanna í heilsugæslunni.“

Svarið er að þessi mæling hefur ekki verið framkvæmd en fjöldi námskeiða hefur verið haldinn á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir heilbrigðisstarfsmenn um fjölbreytileg efni um geðvernd og tengslamyndun, um innleiðingu forvarna gegn kynferðislegu ofbeldi, og fræðslu um geðheilbrigði, svo að fátt eitt sé nefnt. Hundruð heilbrigðisstarfsmanna hafa sótt þessi námskeið.

„c. að auka færni fagfólks á fyrstu stigum heilbrigðisþjónustu til að styðja foreldra í uppeldishlutverkinu með því að tryggja að allar heilsugæslustöðvar hafi fengið námskeið og ráðgjöf varðandi jákvætt uppeldi.“

Svarið er að fjöldi leiðbeiningarnámskeiða hefur verið haldinn fyrir fagfólk innan heilsugæslunnar til að halda uppeldisnámskeið og námskeið fyrir börn með ADHD.

„d. að tryggja að uppeldisfræðsla verði orðin hluti af almennri heilsuvernd barna.“

Svarið er að ekki hefur verið kannað hvort þetta er að fullu tryggt með nýrri handbók í ung- og smábarnavernd, en þar er aukin áhersla lögð á leiðbeiningar um hegðun og uppeldi barna. Fjöldi færniþjálfunarnámskeiða hefur verið haldinn innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir foreldra og börn, svo sem uppeldisnámskeið, námskeið um ADHD og fleira.

„e. að safna 4 milljónum króna til aðstoðar þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.“

Svarið er að ekki hefur tekist að fá upplýsingar um heildarsölu bókarinnar Velgengni og vellíðan — um geðorðin 10 eins og gert var ráð fyrir í heilsustefnunni. Lýðheilsustöð gaf vinnu og prentun á 5.000 eintökum bókarinnar sem var seld án þóknunar af Jólahjálpinni árið 2009, það hefur verið í samráði við Mæðrastyrksnefnd, og rann öll innkoma af sölu bókarinnar óskipt til Jólahjálparinnar.

„f. að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins verði byrjuð að nota ávísun á hreyfingu.“

Svarið er að það markmið náðist ekki en í burðarliðnum er tilraunaverkefni um ávísun á hreyfingu á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við sjúkraþjálfunarstöðvar og fimm heilsugæslustöðvar.

Ég vona að þetta svari þeim fyrirspurnum um þennan þátt heilbrigðisstefnu fyrrverandi heilbrigðisráðherra og læt lokið máli mínu.