139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, virkjun fyrirmynda o.fl.

599. mál
[18:17]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort hægt er að segja að við höfum misst úr nokkur ár. Auðvitað höfum við misst úr varðandi mælingarnar en það skiptir auðvitað miklu máli að hlutirnir séu þó í ákveðnum framgangi.

Í sjálfu sér væri mjög æskilegt frekar en að vera með einhverja gæðastaðla sem settir eru á einstaka skóla, þó að það gæti vel komið til greina, að vinna á vegum velferðarvaktarinnar að félagsvísum þar sem menn reyna að búa til viðmið þar sem menn geta kortlagt með hvaða hætti þeir ætla að fylgjast með ákveðinni þróun í samfélaginu. Ég held að það væri ekki vitlaust að gera það líka varðandi heilbrigðisvísana, þ.e. að reyna að búa til með hverju við erum að fylgjast á hverjum tíma. Hvað er það sem við viljum skoða? Auðvitað er þessi heilsustefna hluti af því en þetta má þó ekki vera umfangsmeira en svo að það sé auðvelt að sjá um að það gangi sjálfkrafa eftir.

Varðandi mötuneytin og hvað börnin borða held ég að almennt séð sé ástandið mjög gott, en auðvitað skiptir mestu máli að við vinnum í því að börnin borði þann mat sem boðið er upp á, því sé þá fylgt eftir. Það er boðið upp á ávexti og grænmeti en börnin borða það kannski ekki. Það þarf að þjálfa þau upp og kynna hollustuna fyrir þeim, hreinlega kenna þeim að borða, og það eru ekki síður heimilin sem þurfa að koma með í það en kennarar og starfsfólk skólanna.

Það getur líka haft áhrif hvert umhverfið er. Þetta hafa oft verið stór mötuneyti, lítil börn geta verið óörugg og þá þarf kannski að búa til betra umhverfi þannig að þau noti matinn betur. Þetta hefur verið til skoðunar í velferðarráðuneytinu og þar munum við halda áfram að skoða þessa þætti í samráði við skólayfirvöld.

Bent er á að fyrirmyndir geti skipt miklu máli. Nú hafa ákveðnir aðilar tekið frumkvæði að því að berjast gegn munntóbaksnotkun í íþróttum og þar mundum við hugsanlega nota þessa hugmyndafræði í framhaldinu. Ég ætla að vona að alvara verði úr því. Eins og ég segi getur frumkvæði utan frá, frá íþróttahreyfingunni og einstaklingum, skipt mjög miklu máli í allri svona vinnu, að það sé komi frá slíkum aðilum (Forseti hringir.) og menn dragi þá fram þær fyrirmyndir sem við viljum hafa varðandi það að stoppa óæskilega neyslu.