139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, hvatning til frístundaheimila o.fl.

600. mál
[18:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er áfram á sama stað og enn þá erum við að ræða börnin og ungmennin, spyrja sérstaklega út í þau markmið eins og í fyrri spurningum. Það er rétt sem hér hefur komið fram, mikilvægasti þátturinn er heimilin og foreldrarnir, bæði sem fyrirmynd og uppalendur. Hins vegar eru börnin og ungmennin að stórum hluta bæði vikunnar og ársins í skólanum og afskaplega mikilvægt að við vinnum mál þar eins vel og mögulegt er og stuðlum líka að samvinnu milli foreldra og skóla.

Þess vegna spyr ég út í markmiðin, og spurningarnar hljóma svona:

Hvernig hefur gengið að ná fram eftirtöldum markmiðum sem eru sett fram í heilsustefnu ráðuneytisins frá 2008:

a. að öll frístundaheimili hafi fengið hvatningu til að bjóða upp á næringu í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar í lok árs 2009,

b. að allir grunnskólar og foreldrar hafi verið hvattir til að auka hreyfingu barna í lok árs 2009,

c. að grunnskólar séu án tóbaks og vímuefna í lok árs 2010,

d. að allir framhaldsskólar hafi fengið hvatningu og/eða aðstoð við að útfæra heilsustefnu í skólanámskrá sinni þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda og starfsmanna með áherslu á heilsueflingu og forvarnir þar sem komið verði á samstarfi við foreldra- og nemendafélög,

e. að í lok árs 2009 verði búið að hvetja alla framhaldsskólar til aukins aðgengis að hollum mat í skólunum og veita starfsmönnum mötuneyta ráðleggingar um hollt mataræði,

f. að 30% framhaldsskóla hafi sótt um viðurkenningu í lok árs um að þeir fari eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni sem útfærðar eru í handbók fyrir skólamötuneyti?

Virðulegi forseti. Hér erum við fyrst og fremst að spyrjast fyrir um hreyfinguna sem mikið vantar upp á að sé í lagi á mörgum stöðum og sömuleiðis næringuna í skólunum. Af því að hæstv. ráðherra talaði áðan um að þetta væri á flestum sviðum í góðu lagi vona ég að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér. Okkur vantar samt mælingar til að vita það. Ég hef af þessu áhyggjur og veit að ég er ekki eina foreldrið á þeim slóðum. Ég vona að áhyggjurnar séu óþarfar en aðalatriðið fyrir okkur er að við verðum að vita, og til að vita verðum við að mæla.