139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, hvatning til frístundaheimila o.fl.

600. mál
[18:23]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér erum við með enn eina fyrirspurnina sem tengist þessari sömu heilsustefnu fyrrverandi heilbrigðisráðherra og fyrirspyrjanda. Fyrst er spurt um það markmið að öll frístundaheimili hafi fengið hvatningu til að bjóða upp á næringu í samræmi við ráðleggingu Lýðheilsustöðvar í lok árs 2009. Svarið er að þetta markmið náðist þar sem öll frístundaheimili fengu tölvupóst þar sem þau voru hvött til að bjóða upp á næringu í samræmi við ráðleggingarnar. Þá var hringt í hvert sveitarfélag og í kjölfarið var þeim sent erindi þar sem leiðbeiningar voru kynntar og þau hvött til að fylgja þeim á frístundaheimilum sínum. Að auki hefur Lýðheilsustöð fylgt eftir ráðleggingunum til frístundaheimila með fyrirlestrum.

B-liður er um hvort allir grunnskólar og foreldrar hefðu verið hvattir til að auka hreyfingu barna í lok árs 2009. Svarið er að ekki hafa allir grunnskólar og foreldrar tekið þátt en stór hluti þó. Verkefnið sem hér hefur verið nefnt áður, Allt hefur áhrif, einkum við sjálf, miðar m.a. að þessu.

Árið 2010 gaf Lýðheilsustöð út ítarlega handbók um hreyfingu fyrir grunnskóla og Lýðheilsustöð hefur einnig verið samstarfsaðili um verkefnin Göngum í skólann og Lífshlaupið sem hvetja grunnskólabörn til daglegrar hreyfingar. Ég held að það sé ástæða til að ítreka að með verkefni eins og Göngum í skólann skiptir miklu máli að nota þessa hreyfingu þar sem hægt er að koma því við, eins og öllum smærri byggðarlögum og mjög víða í hverfum í Reykjavík, þ.e. að ganga í skólann í staðinn fyrir að keyra heim að dyrum og reyna svo að kría út 20 mínútum lengri leikfimitíma sem skilar ekki endilega því sama.

C-liðurinn er um að grunnskólar yrðu án tóbaks og vímuefna í lok árs 2010. Svarið við því er að því miður voru grunnskólar okkar ekki tóbaks- og vímuefnalausir í lok árs 2010, eins og markmiðið kvað á um, en kannanir sýna að enn hefur dregið úr tóbaksnotkun og notkun vímuefna í grunnskólum. Verkefnið Tóbakslausir grunnskólar sem hóf göngu sína árið 2010 er í fullum gangi og ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um tóbaksvarnir í grunnskólum landsins hafa verið afhentar öllum grunnskólum landsins og hægt að fá frekari kynningu. Þá hefur Evrópuverkefnið Reyklaus bekkur staðið í 12 ár og allt að 70% 7. og 8. bekkja í grunnskólum landsins hafa verið þátttakendur. Svo er auðvitað vitað að þónokkuð margir grunnskólar eru algjörlega tóbakslausir þó að ekki hafi tekist að gera þá alla tóbakslausa.

D-liðurinn er um að allir framhaldsskólar hafi fengið hvatningu og/eða aðstoð við að útfæra heilsustefnu í skólanámskrá sinni. Öllum framhaldsskólum hefur verið boðið að taka þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskólar á vegum Lýðheilsustöðvar og taka 24 framhaldsskólar af 32 nú þátt í verkefninu og a.m.k. tveir til viðbótar bætast við í haust. Helstu viðfangsefnin eru næring, hreyfing, geðrækt og lífsstíll og eru viðurkenningar veittar fyrir árangur í hverjum flokki. Þess má að auki geta að í október 2010 var endurnýjaður samningur um heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum til þriggja ára, svokallað HOFF-verkefni. Hv. þm. og fyrirspyrjandi Guðlaugur Þór Þórðarson kom þessu verkefni af stað á sínum tíma og því hefur verið fylgt eftir bæði af heilbrigðis- og menntamálaráðuneyti.

E-liðurinn er um að í lok árs 2009 verði búið að hvetja alla framhaldsskóla til að auka aðgengi að hollum mat í skólunum og veita starfsmönnum mötuneyta ráðleggingar um hollt mataræði. Lýðheilsustöð gaf árið 2010 út handbók um mataræði í framhaldsskólum sem hefur nú verið fylgt eftir í öllum framhaldsskólum með fyrirlestrum fyrir starfsfólk mötuneyta, starfsfólk skólans og nemendur.

F-liðurinn er um að 30% framhaldsskóla hafi sótt um viðurkenningu í lok árs um að þeir fari eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni sem útfærðar eru í handbók fyrir skólamötuneyti. Handbók um mataræði í framhaldsskólum sem ég minntist á hér á undan var gefin út í tengslum við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskólar. Þar eru viðurkenningar veittar þeim skólum sem fara eftir listum í handbókinni, en í þessu svari eða á þessum tíma liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um hversu margar þær viðurkenningar eru.

Almennt má segja að gert hafi verið sérlega myndarlegt átak í framhaldsskólunum. Það skiptir mjög miklu máli vegna þess að oft og tíðum hafa leikskólar og grunnskólar tekið frumkvæði í heilsueflandi þáttum en nú hafa framhaldsskólarnir komið mjög myndarlega inn í þetta verkefni. Auðvitað verðum við að binda vonir við að framhald verði á og auðvitað er ástæða til að fylgjast mjög vel með því hver þróunin verður, en ég held að við verðum að treysta á að umræðan, bæði með þessari fyrirspurn og því sem hefur verið að undanförnu um ástand mála varðandi offitu fólks í landinu, (Forseti hringir.) taki menn hressilega á í forvarnastarfi hvað þetta varðar.