139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, íþróttamót í framhaldsskólum o.fl.

601. mál
[18:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ekki bara fyrir þessi svör heldur öll svörin. Eins og ég nefndi er það ekkert leyndarmál að ég er að þessu til að hvetja hæstv. ráðherra til dáða og sömuleiðis til að vekja athygli á verkefninu. Þetta er eilífðarmál sem ég mundi telja að væri breið pólitísk samstaða um og það er slæmt að niðurstaðan skuli vera sú eftir að farið hefur verið í gegnum þetta að eftirmenn mínir, hæstv. ráðherrar, hafa ekki fylgt þessu málum eftir og er það mjög slæmt. Ef það er ekki gert með skipulegum hætti bitnar það sérstaklega á börnum og ungmennum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að snúa vörn í sókn því að mörg þessara markmiða eru ekki fjárfrek. Stefnan var endurskoðuð eftir bankahrun, menn tóku tillit til breyttra aðstæðna, en í þessum málaflokki er hægt að setja fjármuni í mjög margt sem skilar sér. Einmitt þess vegna veldur það vonbrigðum að ekki hafi náðst betri árangur en raun ber vitni. Það þýðir að það þarf að gera betur. Ég er ekki að leita að blórabögglum, ég er hér til að hvetja stjórnvöld til dáða. Sumt er þess eðlis að þar eru mjög hæg heimatökin að aðhafast eitthvað og ég varð fyrir miklum vonbrigðum að ráðuneytið skyldi ekki hafa sett þessi markmið fyrir undirstofnanir sínar. Það væri annars frábært fordæmi.

Aðalatriðið er að vinna skipulega að málum með hvatningu og við verðum að mæla árangurinn vegna þess að ef við gerum það ekki vitum við ekki hvort við náum einhverjum árangri. Við vitum þá ekki hvað við erum gera, hvort það skili árangri. Við getum í því sambandi litið á vímuvarnir. (Forseti hringir.) Þar hafa menn unnið skipulega að samstarfi fræðimanna og grasrótarinnar og það hefur hefur gengið vel.