139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, íþróttamót í framhaldsskólum o.fl.

601. mál
[18:44]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnirnar og tækifærið til að fara yfir þessi mál. Það er alveg rétt að auðvitað verðum við að halda áfram að vinna að forvörnum og hvetja til þess að hlutirnir gangi eftir. Í raun hefði ég átt að vera frá hádegi og í allan dag fram til þessa tíma í stefnumótun með starfsfólki mínu sem unnið hefur að stefnumótun fyrir ráðuneytið. Þar erum við í fyrsta fasa af þremur þar sem verið er að setja heildarstefnu og markmið og reynt að koma skilvirku skipulagi á ráðuneytið til þess að við getum veitt hvað besta þjónustu.

Það er afar mikilvægt að þótt skilaboðin komi ofan frá og við séum með ákveðinn fókus sem kemur frá ráðuneytinu megum við aldrei taka frumkvæðið frá þeim sem eiga að fylgja stefnunni eftir, það eru fyrst og fremst heimilin, skólarnir, einstakar stofnanir sem bera ábyrgð á því að hlutunum sé fylgt eftir og að þeir séu í lagi. Það getum við gert með hvatningu. Það hentar sumum að gera það með mælingum og hvatningu af því tagi sem var í Lífshlaupinu. Það hentar einhverjum öðrum með öðrum aðferðum og ég tel að við eigum að nota sem allra fjölbreytilegastar aðferðir í þeirri vinnu.

Það skiptir líka máli að ýmislegt annað hefur verið gert til að bæta heilsu en akkúrat með hreyfingu. Hér hafa að vísu verið nefnd tóbak og vímuefni. Búið er að vinna mjög mikið varðandi t.d. fíkn eldri borgara, þ.e. ofnotkun á lyfjum, hvernig læknar ávísa lyfjum, hvernig hægt er að minnka notkun á þunglyndislyfjum, svefnlyfjum o.s.frv. Allt er það hluti af því að bæta heilsu og hlúa betur að fólki. Við reynum að hvetja fólk til að kynna sér aðrar leiðir en lyf eða að treysta á að sjúkrahúsin geti rétt það við ef illa fer. Það skiptir auðvitað miklu máli að reyna að beita fyrirbyggjandi aðgerðum frekar en að reyna fyrst að finna einhver úrræði þegar komið er í óefni.