139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-samninginn markar að mörgu leyti tímamót og úr því ferli öllu saman þarf að vinna á næstu missirum þjóðinni til heilla. Góð kosningaþátttaka, hnökralaus framkvæmd og afdráttarlaus niðurstaða eru allt jákvæðir þættir sem eru hvetjandi fyrir áframhaldandi þróun beins lýðræðis með þjóðaratkvæðagreiðslu og á því þurfum við að byggja þó ljóst sé að um hana þurfi að setja skýrari ramma.

Gagnvart Icesave-málinu sjálfu markaði atkvæðagreiðslan skýr þáttaskil en af henni má draga afdráttarlausa niðurstöðu. Meiri hluti þjóðarinnar hefur ákveðið að snúa frá þeirri stefnu sem mörkuð var og unnið hefur verið eftir undanfarin tvö og hálft ár í Icesave-deilunni og markað nýja leið. Þrjár ríkisstjórnir, þingmeirihlutar fyrir og eftir alþingiskosningar og í raun allir flokkar hafa á einhverjum tíma í vegferð þessa mikla deilumáls reynt að ljúka því með samningum. Það átti ekki síst við í vinnu við gerð síðasta samnings þar sem stjórn og stjórnarandstaða unnu saman allt til loka samningaferlisins.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur nú fyrir og felur í sér að ekki verður samið um greiðslur vegna Icesave-innstæðna í Bretlandi og Hollandi. Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru að lögformlega verði úr því skorið hvort slík greiðsluskylda er fyrir hendi en þeirri lagalegu óvissu hefur alltaf verið haldið til haga. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem mörkuð var í kosningunum ber okkur öllum að vinna mjög markvisst í framhaldinu.

Ríkisstjórnin hefur þegar gert umheiminum og öllum helstu hagsmunaaðilum skýra grein fyrir þeirri breytingu sem nú hefur orðið og raunar hefur um nokkurt skeið verið unnið að því innan stjórnsýslunnar að tryggja að sú niðurstaða sem varð ofan á ylli sem minnstri röskun eða óróa. Stjórnvöld hafa verið í stöðugu og góðu samstarfi við samstarfsaðila á Norðurlöndum og í Póllandi, fulltrúa gjaldeyrissjóðsins og stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi til að tryggja að þessir aðilar fylgist vel með framvindu mála og hafi rétta mynd af þeirri niðurstöðu sem nú er fengin. Þá hafa fulltrúar Seðlabankans verið í stöðugu sambandi við matsfyrirtæki síðustu daga og vikur. Utanríkisráðuneytið hefur auk þess haldið sendiráðum og sendifulltrúum allra ríkja á Íslandi upplýstum um stöðu mála og fundað með þeim. Þá hafa ég, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra átt símtöl við starfsbræður okkar á Norðurlöndum til að koma í veg fyrir að nokkrir hnökrar verði á lánafyrirgreiðslum sem eru hluti af efnahagsáætluninni. Allt hefur þetta skilað sér í því að viðbrögð þessara aðila hafa verið yfirveguð og frekar jákvæð sem betur fer. Ríkisstjórnin mun halda þessu starfi áfram á næstu dögum í nánu samstarfi við Seðlabanka Íslands.

Segja má að verkefnið nú sé tvíþætt, annars vegar að fylgja eftir Icesave-deilunni á vettvangi ESA og mögulega dómstóla í framhaldinu og hins vegar að tryggja að efnahagsleg endurreisn landsins gangi fram af þeim krafti sem þjóðin þarf svo sannarlega á að halda. Ljóst er að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar kallar á visst endurmat á forsendum ríkisfjármála og efnahagsmála og þá meðal annars á áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna. Það endurmat mun liggja fyrir í fyrri hluta maímánaðar.

Einna mestu máli skiptir að alþjóðlegu matsfyrirtækin taki ekki ákvarðanir um lækkað lánshæfismat Íslands nú í kjölfar niðurstöðunnar og hins vegar að fjármögnun efnahagsáætlunar Íslands í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verði áfram tryggð. Að því er nú róið öllum árum að tryggja jákvæða niðurstöðu í þessum málum. Moody´s hefur þegar fallist á að bíða með sitt endurmat, að minnsta kosti fram yfir fund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem verður um næstu helgi. Þar með mun fjármála- og efnahags- og viðskiptaráðherra funda með fyrirtækinu ásamt fulltrúum Seðlabankans í Washington.

Í gær gaf Fitch hins vegar út nýtt álit á stöðu Íslands en fyrirtækið lækkaði lánshæfismat Íslands í ruslflokk þegar Icesave-lögunum var synjað af forsetanum fyrir rúmu ári. Álitið felur ekki í sér breytingu á lánshæfismati ríkissjóðs frá þeim tíma en fram kemur að niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni getur tafið fyrir hækkun í fjárfestingarflokk í nánustu framtíð. Fitch lækkaði hins vegar langtímaeinkunn ríkissjóðs í erlendri mynt með neikvæðum horfum. Enn er beðið ákvörðunar Standard & Poor´s í þessum efnum.

Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa þegar sagt það skýrt að niðurstaðan hafi ekki bein áhrif á framgang áætlunarinnar að öðru leyti en því að næsta fyrirtaka tefst óhjákvæmilega, vonandi þó ekki lengur en fram í miðjan maí. Fjármögnun áætlunar hjá vinaþjóðum á Norðurlöndum og Póllandi þarf hins vegar að vera trygg og þar má engin detta úr skaftinu.

Við höfum nú þegar fengið fyrirheit flestra vinaþjóðanna fyrir áframhaldandi fjármögnun og í samtölum mínum við forsætisráðherra Svíþjóðar og Noregs í morgun kom fram stuðningur þeirra við að svo gæti orðið. Ég er því nokkuð bjartsýn á að framgangur áætlunarinnar verði tryggður á næstu dögum. Við verðum jafnframt stöðugt að koma sjónarmiðum okkar á framfæri þannig að ekki leiki vafi á því að við ætlum að borga það sem okkur ber. Hér heima ríður hins vegar mest á að tryggja að samningar náist á vinnumarkaði þannig að þar ríki friður í stað óvissu og átaka. Ráðherrar í ríkisstjórninni funda í dag ásamt seðlabankastjóra með samninganefndum aðila vinnumarkaðarins. Áhersla ríkisstjórnarinnar er sú að allt verði gert til að tryggja frið og helst af öllu þannig að um langtímasamninga verði að ræða. Til þess að svo megi verða er ríkisstjórnin reiðubúin að ganga ansi langt, þó þannig að markmiðum efnahagsáætlunarinnar verði ekki ógnað og allt sé innan þess sem ríkisfjármálin þola. Þá verða traustar þjóðhagslegar forsendur að liggja til grundvallar áætlun kjarasamninga um hagvöxt og fjárfestingar.

Kostirnir í þessari stöðu verða endurmetnir á næstu dögum í ljósi þeirrar niðurstöðu sem nú liggur fyrir í Icesave-málinu en hjá aðilum vinnumarkaðarins virðast vera vaxandi efasemdir um langtímasamning í ljósi óvissunnar af áhrifum Icesave-deilunnar. Vonandi ná menn saman um skynsamlega lausn í því efni á næstu dögum.

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur þegar verið í sambandi við Eftirlitsstofnun EFTA vegna næstu skrefa í málinu og nú munu allir leggjast á eitt við að halda málstað Íslands á lofti af fullri einurð og af miklum krafti. Við munum fá okkur til stuðnings sérfræðinga, innlenda og erlenda, og þá bestu lögmenn sem völ er á hér á landi úr röðum beggja fylkinga. Mikilvægt er að öll sjónarmið og rök komi fram. Svar stjórnvalda til ESA hefur legið fyrir í nokkurn tíma en nú verður farið yfir það að nýju og metið hvernig best sé að halda á málum í þeirri stöðu sem nú er uppi. Ljóst er að Eftirlitsstofnun EFTA telur að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi ekki verið framkvæmd á réttan hátt hér á landi og staðan er sú að stofnunin hefur hafið samningsbrotamál gegn íslenska ríkinu vegna þessa. Allt verður gert svo við getum teflt fram gildum rökum máli okkar til stuðnings.

Í mínum huga skiptir öllu máli að allir stjórnmálaflokkar snúi bökum saman um framvindu þessa máls. Sú stefna sem þjóðaratkvæðagreiðslan markaði í þeim efnum leggur þær skyldur á herðar stjórnmálamönnum að hefja deiluna upp úr átakafarvegi og verkefni okkar er að sameinast um hvert skref. Næsta skref er að ráðherrar munu eftir fund formanna flokkanna í morgun funda með utanríkismálanefnd um viðbrögð við bréfi ESA. Þá hefur efnahags- og viðskiptaráðherra fengið það verkefni að setja saman hóp ráðgjafa, meðal annars úr nei- og já-hreyfingunum sem tókust á í aðdraganda kosninganna til ráðslags og ákvarðanatöku í framhaldinu. Stjórnarandstöðuflokkunum verður að sjálfsögðu boðið að koma að mótun efnisatriða og stefnumarkandi ákvörðunum í málinu í framhaldinu og reglulegt samráð verður haft á öllum stigum málsins.

Ég vil ítreka það sem þegar hefur komið fram og mikilvægt er að halda til haga að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur ekki áhrif á skipti bús Landsbanka Íslands hf. sem fer fram á grundvelli íslenskra laga. Væntingar standa til þess að úthlutun úr búinu hefjist í sumar og eru góðar líkur á að eignir búsins muni að langmestu eða öllu leyti duga fyrir forgangskröfum vegna Icesave. Allar hugmyndir og tillögur til lausnar á þessu flókna máli verða nú skoðaðar, meðal annars í ljósi þessara staðreynda, einnig hvort sú leið reynist raunhæf að ESA bíði með frekari aðgerðir í málinu á meðan niðurstaða fæst varðandi endanlegt uppgjör á kröfum Breta og Hollendinga í bú gamla Landsbankans eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt til að skoðað verði.

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir þá stefnubreytingu sem leiðir af þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave er verkefni okkar við endurreisn efnahagslífsins óbreytt. Verkefni okkar er að tryggja að sá stöðugleiki og sá árangur sem náðst hefur í efnahagslífinu eftir hið fordæmalausa hrun verði nýttur til aukins hagvaxtar, aukins kaupmáttar launafólks og minna atvinnuleysis. Til þess höfum við allar forsendur ef rétt spilast úr málum og ef við fáum svigrúm alþjóðasamfélagsins til að sýna hvað í íslensku atvinnulífi og launafólki býr. Tækifærin eru hvarvetna í atvinnulífinu og jafnvel þó hindranir verði til að tefja fyrir einstökum þáttum endurreisnaráætlunarinnar eru framtíðarmöguleikar landsins miklir.

Það er einlæg von mín að sú staða sem nú er uppi hafi ekki mikil áhrif á einstök stórverkefni, svo sem Búðarhálsvirkjun og ég vona svo sannarlega að hún hafi ekki umtalsverð áhrif á starfsemi fyrirtækja almennt. Nú er það okkar að berjast fyrir því að tafir á endurreisninni verði sem allra minnstar og að efnahagsáætlunin standist að mestu. Icesave-deilan mun leysast á endanum, hvort sem það verður eftir eitt, tvö eða þrjú ár, og þegar niðurstaðan liggur fyrir um mögulega ábyrgð Íslands munu Íslendingar gera allt sitt til að standa við skuldbindingar sínar í þeim efnum, það ætti að vera allra hagur. Þar til niðurstaðan liggur fyrir er mikilvægt að alþjóðasamfélagið veiti okkur það svigrúm og stuðning sem nauðsynlegt er fyrir efnahags- og atvinnulíf á Íslandi. Þannig eru mestar líkur á því að úr deilunni leysist með farsælum hætti fyrir alla aðila. Hér eftir sem hingað til mun ríkisstjórnin berjast fyrir hagsmunum Íslands í þessum efnum og hér eftir sem hingað til kalla ég eftir samstöðu þjóðarinnar um lausn Icesave-deilunnar og einlægum ásetningi um að nýta tækifærin sem bíða okkar.