139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umhyggju formanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, vegna heilsufars ríkisstjórnarinnar og innri vanda stjórnarflokkanna. Einhver hefði nú haldið að hann ætti kannski að líta sér nær.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur fyrir og er skýr. Ég held að það sé engin leið að túlka hana öðruvísi en svo að sú samningaleið sem íslensk stjórnvöld mótuðu á haustmánuðum 2008 sé á enda runnin. Þjóðin hefur talað skýrt í þeim efnum og sættir sig væntanlega ekki við annað en að niðurstaða fáist í þessu máli fyrir dómi.

Það er mikilvægt að halda því til haga að íslensk stjórnvöld geta með fullum rétti staðið á því að þau hafi verið sjálfum sér samkvæm allan þennan tíma. Þá meina ég íslensk stjórnvöld í skilningnum Alþingi og ríkisstjórn. Sú stefna var mótuð hér í október, nóvember og desember 2008 að þrátt fyrir lagalega óvissu í þessu máli væru íslensk stjórnvöld tilbúin til að reyna að leiða deiluna til lykta við samningaborðið. Það er sú stefna sem nú er á enda runnin, þjóðin hefur talað skýrt í þeim málum. En það er mikilvægt að geta haldið þessu fram vegna þess að annars væru íslensk stjórnvöld í málafylgju sinni í mótsögn, sem þau eru ekki. Allt frá því að fyrsta skriflega, undirritaða, yfirlýsingin um að Íslendingar væru tilbúnir til að leysa þetta við samningaborðið kom fram — og hvenær var það? 19. nóvember 2008 þegar þeir Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen og Davíð Oddsson rituðu undir það í fyrstu samstarfsyfirlýsingunni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að Íslendingar væru tilbúnir til að leiða málið til lykta með samningum, og það á næstu dögum eins og þá var sagt. Allan tímann síðan hefur verið unnið samkvæmt þessu. Það er lagaleg óvissa um skuldbindingar okkar, en við erum tilbúin til að reyna að útkljá þetta við samningaborðið. Nú hefur það ekki tekist og þá fer ágreiningurinn sína leið, eins og menn eiga auðvitað fullan rétt á, til þar til bærra dómstóla.

Það er sömuleiðis ástæða til að minna á að þessi leiðangur, hinn síðasti, lagði af stað í þverpólitískri samstöðu allra stjórnmálaflokka á Alþingi, í þverpólitískri nefnd sem skipuð var um það verkefni. Nú liggur niðurstaðan fyrir, það er mikilvægt að vinna úr henni og virða hana að sjálfsögðu í hvívetna. Viðbrögðin hafa að mínu mati tekist vel, enda erum við orðin býsna reynd í því að takast á við óvæntar aðstæður af þessu tagi. Það hefur tekist mun betur að tryggja að ekki skylli á fjölmiðlafár neikvæðrar umræðu um Ísland nú en t.d. í janúarbyrjun 2010, m.a. vegna þess að nú höfðu íslensk stjórnvöld ráðrúm til að undirbúa sig. Það var hægt að dæla út upplýsingum strax á fyrstu klukkutímunum eftir að atkvæðagreiðsla lá fyrir um hluti eins og þá að miklir fjármunir væru komnir í bú Landsbankans, að þeir færu að greiðast út og að Bretar og Hollendingar færu þar af leiðandi að fá fjármuni upp í sínar kröfur. Stjórnvöld gátu undirbúið bæði já- og nei-niðurstöðu og ég tel að í aðalatriðum hafi tekist vel að koma því rækilega á framfæri.

Það er líka ástæða til að árétta að Ísland er ekki í neinum greiðsluvandræðum og verður ekki næstu árin. Við erum fullnægjandi fjármögnuð til að ráða við allar okkar skuldbindingar og munum gera það. Það er ánægjulegt að í þessari umferð hefur engin umræða komið upp um mögulegt greiðslufall Íslands. Það er vegna þess að Ísland hefur bæði greiðslugetu og greiðsluvilja til að standa við skuldbindingar sínar, og mun gera það. Hér erum við að tala um alvarlega hluti sem hafa mikil áhrif þannig að í þessu þurfum við að hjálpast að.

Að mínu mati hefur sömuleiðis tekist vel, eftir því sem enn er komið, að rækta samskiptin við erlend stjórnvöld, við matsfyrirtæki og aðra áhrifaaðila fyrir utan fjölmiðla sem hér skipta máli. Eins og kom fram hjá forsætisráðherra höfum við átt fjölmörg samtöl við starfssystkini okkar í nálægum löndum. Ég átti í gær góð samtöl við fjármálaráðherra Svíþjóðar, Anders Borg, og fjármálaráðherra Noregs, Sigbjørn Johansen, og ég hygg að við eigum að mæta skilningi og velvilja af hálfu stjórnvalda annars staðar á Norðurlöndunum, að niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni um helgina verði ekki látin trufla áframhaldandi samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fjármögnun þess prógramms. Það er mjög mikilvægt því að það er einn af þrem, fjórum mikilvægustu þáttunum sem við þurfum að tryggja að gangi sem hnökralausast áfram þrátt fyrir þessa niðurstöðu, sömuleiðis að fimmta og næstsíðasta endurskoðun samstarfsáætlunarinnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn komist sem fyrst á dagskrá og í gegn og að prógramminu geti lokið með eðlilegum hætti síðsumars.

Að sjálfsögðu þarf nú að undirbúa vel og í góðu þverpólitísku samstarfi svör okkar til Eftirlitsstofnunar Evrópska efnahagssvæðisins, ESA. Það þarf að uppfæra það svar sem fyrir lá í drögum frá því í haust í ljósi þeirra aðstæðna sem nú blasa við okkur, bæði hér og líka úti í Evrópu þar sem ýmislegt hefur breyst í fjármálakerfinu. Að sjálfsögðu verður tekið til ýtrustu varna fyrir hönd Íslands og það er ekkert vandamál í þeim efnum. Það er ósköp einfaldlega skylda stjórnvalda, hver sem þau eru á hverjum tíma, að gera slíkt (Gripið fram í: Hafið þið …?) og til þess verða fengnir færustu menn.

Ég tel ástæðu til að minna hér á, vegna þess að hv. þm. Bjarni Benediktsson boðar bæði vantraust og hafði hér stór orð um horfurnar, að sá maður sem hvað gleggst spáði fyrir um væntanlegan ófarnað Íslands árið 2006, Lars Christiansen hjá Danske Bank, hefur nú birt nýtt mat um Ísland — og hvað staðfestir sú spá? (Gripið fram í: Stöðugt atvinnulíf.) Að Ísland sé komið út úr því versta, að hér sé hagvöxtur hafinn (Gripið fram í.) og horfurnar ágætar (REÁ: Ekki nægar.) og að við gætum átt inni í þeim efnum frekar en hitt, að því tilskildu að okkur takist að losa um aðgang að fjármagni. (Gripið fram í: Á …) Þeirri greiningu er ég alveg gjörsamlega sammála. Það er ýmislegt annað í þeirri spá sem ég set miklu meiri spurningarmerki við, eins og áform um ótrúlega styrkingu krónunnar og allt of svarta atvinnuleysisspá. Heildarsvipurinn á því er ánægjulegur, glöggt er gests augað og maðurinn sem sá hinar dökku horfur hellast yfir íslenskt þjóðarbú á sínum tíma, 2006, og reyndist hafa rétt fyrir sér, spáir núna að betri tíð sé í vændum á Íslandi. Vonandi (Forseti hringir.) hefur hann rétt fyrir sér aftur að þessu sinni og það hlýtur að hugga svartsýniskórinn hér að þessi maður spáir þessu. (Gripið fram í: Hvað með ríkisstjórnina?)