139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að óska þjóðinni til hamingju með glæsilega þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég ætla líka að óska þeim sem sögðu nei í þeirri atkvæðagreiðslu til hamingju með það að þjóðin var ekki reiðubúin að láta skuldir einkafyrirtækis lenda á almenningi, að þjóðin var ekki reiðubúin að láta mistök útrásarvíkinga sem urðu til vegna galla í innstæðutryggingarkerfi Evrópusambandsins bitna á framtíð Íslands.

Ég átti þess kost að fara víðs vegar um landið og halda fyrirlestur ásamt formanni fjárlaganefndar þar sem við kynntum viðhorf okkar til þessa mikilvæga máls. Við fórum um allt land og það sem ég var ánægðastur með að finna var það hversu vel upplýstur almenningur var, hvað hann hafði kynnt sér öll gögn málsins af gaumgæfni og gat þess vegna tekið upplýsta ákvörðun.

Það var ekki baráttulaust sem öll þessi gögn lágu frammi. Rauði þráðurinn í þessu máli hefur verið sá að gögnum hefur verið haldið frá almenningi. Þannig var áliti breskrar lögmannsstofu um að við ættum ekki að borga stungið undir stól strax í upphafi þessa máls, leynimöppu og leynisamningum var haldið á göngum Alþingis fjarri augum almennings þar sem m.a. var að finna atriði sem skipti tugum, ef ekki hundruðum, milljarða fyrir framtíð þessa lands. Nú síðast var upplýsingum um greiðslur til samninganefndarinnar haldið leyndum. Þetta er skammarlegt og íslensk stjórnvöld bera á þessu fulla ábyrgð.

Frá upphafi til enda hefur Framsóknarflokkurinn staðið í lappirnar. Á öllum stigum málsins höfum við haldið því til haga að ríkissjóði beri ekki lagaleg skylda til að greiða fyrir Icesave-skuldbindingarnar. Á öllum stigum málsins höfum við lagt fram breytingartillögur þess efnis að jafnvel þó að við færum ekki með málið fyrir dómstóla fengjum við að njóta þess ef þar til bærar stofnanir Evrópusambandsins eða annarra kæmust að því að lagaskyldan væri ekki fyrir hendi.

Þegar niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur fyrir og meiri hluti þjóðarinnar hefur fellt Icesave-samninginn er mikilvægt að standa dyggan vörð um hagsmuni Íslendinga. Þjóðin þarf að snúa bökum saman. Ég hef hins vegar miklar efasemdir og verð að viðurkenna að ég treysti ekki stjórnvöldum til að halda málstað Íslendinga á lofti gagnvart öðrum ríkjum, að koma réttum upplýsingum til matsfyrirtækja og tala upp íslenskt atvinnulíf. Það þarf fleiri en forseta Íslands til að benda á áhuga erlendra stórfyrirtækja á að fjárfesta á Íslandi og það er vel við hæfi að hrósa meðlimum Indefence- og Advice-hópanna fyrir framgöngu þeirra í málinu.

Ég treysti heldur ekki íslenskum stjórnvöldum til að verjast í væntanlegum dómsmálum, hvort sem er fyrir EFTA-dómstólnum eða hér á landi, fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti. Nú liggur fyrir að það þarf að svara áliti ESA og það hvílir á efnahags- og viðskiptaráðuneytinu að gera það innan tveggja mánaða. Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig staðið verður að málum hvað snertir varnir Íslands, sér í lagi þegar sjálfur efnahags- og viðskiptaráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að Íslendingum beri samkvæmt þjóðarétti að greiða fyrir skuldbindingarnar.

Væri þá ekki réttast, í ljósi þess að ég treysti ekki ríkisstjórninni, að hér kæmi fram vantraustsyfirlýsing á ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Hinn eðlilegi farvegur slíkrar tillögu væri að hún kæmi frá formanni stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Alþingi og ég fagna því að hún er nú komin fram. Hún verður að koma úr þeirri átt til að mark sé á henni takandi. Ég verð samt að viðurkenna að á henni er einn stór og mikill galli, ríkisstjórnin situr nú í skjóli þeirra sem sögðu já við Icesave-samningunum á Íslandi. Erlendir aðilar, fjölmiðlar og ríkisstjórnir velta fyrir sér hvernig í ósköpunum ríkisstjórnin geti enn setið við völd. Það er ábyrgðarhluti þeirra sem sitja hvort þeir treysti sér enn til að gæta vel að hagsmunum Íslendinga.

Við sem erum í Framsóknarflokknum munum áfram beita okkur fyrir því að standa dyggan vörð um hagsmuni Íslands. Icesave-málinu er ekki lokið en við munum bera sigur úr býtum eins og við höfum gert hingað til.