139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:40]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Á þessum tímamótum í Icesave-málinu er full ástæða til að rifja upp sögu málsins, ekki síður en að fara yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna og framhaldið.

Snemma árs 2006 spáði danskur bankasérfræðingur hruni íslensku bankanna sem þá þegar voru vaxnir yfir höfuð íslensku þjóðfélagi. Íslensk stjórnvöld blésu á þessi viðvörunarorð, og meira en það, þau hófu áróðursherferð fyrir bankana og héldu verndarhendi yfir þeim allt fram að hruni. Við stjórnarmyndun vorið 2007 sammæltust Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, þvert á fyrirliggjandi staðreyndir, um að blása bankakerfið enn frekar út sem var feigðarflan. Bankamenn gerðu sér grein fyrir því haustið 2007 hvert stefndi, fjármögnun bankanna var komin í mikið óefni. Þá brá Landsbanki Íslands á það óheillaráð að stofna svonefnda Icesave-reikninga í Bretlandi.

Ríkisstjórnin vissi eða mátti vita hvert stefndi. Jón Sigurðsson var skipaður formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins í febrúar 2008 af þáverandi viðskiptaráðherra með það meginhlutverk að stofnað yrði dótturfélag um Icesave. Þvert á þann ásetning og þvert á svarta skýrslu breskra sérfræðinga frá apríl 2008 var Landsbanki Íslands látinn komast upp með það glæpsamlega athæfi, vil ég segja, að stofna Icesave í Hollandi svo seint sem seinni hlutann í maí 2008. Forkastanlegt, og var talin vanræksla af viðkomandi ráðherra í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Svo brast á hrunið og þá upphófust hótanir Breta, Hollendinga, Frakka, Þjóðverja og fleiri og í skugga þessara hótana var ákveðið að fara samningaleiðina. Bretar gengu svo langt að beita hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi með stjórnsýsluákvörðun sem var kæranleg innan þriggja mánaða. Stjórnvöld létu það tækifæri sér úr greipum ganga.

Samfylkingin sýndi líka óábyrga afstöðu, veifaði í hruninu töfrasprotanum um ESB og evru sem voru auðvitað falsvonir eins og dæmin frá Grikklandi, Írlandi og Portúgal sýna. VG lagðist af fullum þunga gegn samningaleiðinni með formann flokksins í broddi fylkingar, samanber m.a. morgunblaðsgrein hans 24. janúar 2009. Kjarnastef í kosningabaráttu VG 2009 var ESB-andstaða og andstaða gegn Icesave.

Á þessu varð kúvending í júní 2009 þegar formaður flokksins kynnti fyrsta Icesave-samninginn. Flokkurinn nötraði stafnanna á milli sumarið 2009. ESB-umsóknin og Icesave hafa síðan verið lík í lest flokksins. Þessi kúvending hefur aldrei verið skýrð af forustu VG. Skýringin blasir hins vegar við, Icesave er skilgetið afkvæmi ESB-umsóknar. Við umsókninni hefði ekki verið tekið nema gegn yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um ábyrgð.

Enn fremur beitti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn okkur þvingunum. Hrakspár ríkisstjórnarinnar rættust ekki. Eftirleikinn ætla ég ekki að rekja. Enn voru þó hafðar uppi þversagnakenndar dómsdagsspár fyrir kosningarnar á laugardaginn. Eftir niðurstöðuna bregður svo við að þveröfug rök eru höfð uppi, þrotabúið mun fara létt með að greiða Icesave.

Auðvitað reyna siðaðar þjóðir að semja um deilur sínar, auðvitað gera menn það. Takist það ekki er jafnsjálfgefið að siðaðar þjóðir leiti lausna í deilum sínum fyrir dómstólum. Það gerum við nú. Það verður tekist á um lögmæti Icesave og skuldbindingar Íslands í þeim efnum. Deilan er margslungin og það er svo sannarlega ástæða til að dómstólar skeri úr um hana. Við höfum fjöldamörg rök með okkur í þessu máli sem ég og fleiri gætum kinnroðalaust fært fram. Ég nefni bara eitt, (Forseti hringir.) ríkisábyrgð til banka er beint samkeppnisbrot. Hið sama gildir um eftiráábyrgð. Verum hnarreist, (Forseti hringir.) teflum öllum okkar rökum fram af einurð og hættum undanlátssemi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)