139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:49]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave-lögin var skýr. Það var mjög góð þátttaka í kosningunum um allt land og það er áríðandi hversu afgerandi og skýr skilaboð íslenska þjóðin hefur sent til stjórnvalda og Breta og Hollendinga. Samningunum hefur verið hafnað, nýr kapítuli tekur við.

Ég er meðal þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem studdu þessa samninga á Alþingi, en ég lagði jafnframt fram tillögu ásamt þingflokknum í heild um að málið skyldi ganga til þjóðarinnar. Rökin fyrir því voru augljós, þjóðin hafði hafnað fyrri samningum með sögulegum hætti og málið var svo umdeilt meðal landsmanna að rétt var að þeir ættu síðasta orðið um málið. Flokkar sem mæra sig af því að styðja þjóðaratkvæðagreiðslur höfnuðu því og var það í þriðja sinn á þessu kjörtímabili sem það hefur verið gert, tvisvar sinnum vegna Icesave og svo í einu umdeildasta máli sem við stöndum frammi fyrir, ESB, þegar þeir höfnuðu því að þjóðin fengi að ákveða hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Afleiðingarnar af þeirri röngu ákvörðun eru augljósar, þjóðin er klofin í herðar niður og Samfylkingin, einn flokka á Alþingi, heldur stjórnmálum og hagsmunum þjóðarinnar í gíslingu með þessari gjaldþrota Evrópustefnu sinni. Út úr þeim ógöngum verður ekki komist nema með kosningum í landinu strax enda virðist Vinstri hreyfingin – grænt framboð ákveðin í því, eins óskiljanlegt og það er, að standa að baki þessari vitleysu, aðildarumsókninni. Sá flokkur er nú orðinn lykillinn að Evrópusambandsumsókninni og nú reynir á.

Hæstv. forsætisráðherra sýndi strax í kjölfar kosninganna að hún á erfitt með að sætta sig við afgerandi niðurstöðu þjóðarinnar og lét þau orð falla að verri niðurstaðan hefði orðið ofan á. Slíkar yfirlýsingar eru grafalvarlegar og veikja stöðu okkar út á við og í raun algjörlega óþolandi við þær aðstæður sem eru uppi. Einnig veldur verulegum vonbrigðum þegar einstakir ráðherrar tala um að flýta þurfi dómsmáli. Undir það tók hæstv. forsætisráðherra í umræðunni áðan. Þetta er fráleitt. Hér er enn og aftur gengið í þveröfuga átt. Nú gildir að halda fast um hagsmuni Íslendinga. Við þurfum ekkert að bregðast við. Nóg er komið af spám um ragnarök og frostavetur. Sannleikurinn er smátt og smátt sá, eins og við sjálfstæðismenn bentum á í aðdraganda kosninganna, að það mun greiðast úr þrotabúi Landsbankans og við Íslendingar eigum að hafa öll okkar lagarök og varnir tilbúin komi til þess að málsókn verði beitt. Á okkur hvílir engin frumkvæðisskylda og það eina rétta er að snúa sér af fullri alvöru og hörku að þeim brýnu verkefnum sem standa fyrir dyrum heima. Það þarf að koma hér atvinnulífi í gang og fólki til vinnu.

Ég er ekki bjartsýn á að ríkisstjórnin átti sig á þessu samhengi hlutanna, virðulegi forseti, enda í mínum huga ekkert pláss fyrir hana lengur við stjórn landsins. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við höfnun Icesave-samninganna hafa fært okkur heim sanninn um að hún hefur enga burði til að semja eða eiga í almennilegum samskiptum við erlend ríki. Hvers vegna ætti nokkur erlend ríkisstjórn að taka þessa ríkisstjórn alvarlega eins og haldið hefur verið á hagsmunum Íslendinga? Og hversu lengi á að bjóða þjóðinni upp á að þessi sama ríkisstjórn sé nú í samningaviðræðum við Evrópusambandið og hvað á að koma út úr því nema einhver endemis vitleysa?

Það liggur þegar fyrir að íslenska þjóðin vill ekki fara í Evrópusambandið. Allir stjórnmálaflokkar nema einn vilja ekki fara þangað þótt einn þeirra sé nú hækja fyrir Samfylkingu og Evrópulestina og lætur sér vel líka. Svona getur þetta ekki gengið. Hæstv. forsætisráðherra treystir ekki íslensku þjóðinni (Forseti hringir.) til að greiða atkvæði í almennum kosningum. Verra getur það ekki verið.