139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir yfirferðina. Þetta mál er góðkunningi okkar í þinginu og góðkunningi þjóðarinnar að sjálfsögðu. Við erum búin að tala um þetta meira og minna á þessu þingi, þeir þingmenn sem hér sitja, frá því að við komum saman.

Það er margt sem hefur komið í ljós í þeirri kosningabaráttu sem ég vil meina að hafi verið háð undanfarið, m.a. hefur komið í ljós að menn töldu að enn og aftur færi hér allt fjandans til ef þetta yrði ekki samþykkt, ef ekki yrði sagt já við þessum samningi. Að sjálfsögðu hefur annað komið strax í ljós.

En við þurfum að fá svör við ýmsum spurningum þannig að við getum farið að horfa fram á veginn sem fyrst. Við verðum að svara því hvers vegna ríkisstjórnin lagði ofurkapp á að auka við ábyrgðir ríkissjóðs með því að bæta við 600–700 milljörðum ef það lá alltaf ljóst fyrir að þrotabúið ætti fyrir öllum þessum kröfum. Við þurfum að svara við spurningunni: Hvers vegna vildi ríkisstjórnin leggja svona mikið á sig, og raunar þeir sem vildu samþykkja þessa samninga, og bæta þessu á ríkissjóð?

Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra áðan. Þjóðin hefur mjög góð rök fyrir því að neita að borga þessar skuldir því að við höfum alltaf sagt að okkur beri ekki skylda til þess. En það hefði verið mjög ánægjulegt ef ríkisstjórnin, aðilar vinnumarkaðarins og aðrir sem hafa lagt ofuráherslu á að íslenska þjóðin axlaði þessa ábyrgð hefðu fært þessi rök fram ásamt okkur hinum sem höfum haldið þeim á lofti um nær tveggja ára skeið. Það hefði verið óskandi, frú forseti.

Það hlýtur að vera áfall fyrir þá ríkisstjórn sem nú situr að hafa enn og aftur fengið höfnun frá þjóðinni á mál sem hún færir fram. Það er vitanlega ljóst að þjóðin treystir ekki þessari ríkisstjórn.

Nú er horft til Íslands frá öðrum ríkjum, ríkjum sem eiga við svipuð vandamál að glíma, ríkjum þar sem stórar Evrópuþjóðir og alþjóðabankar ætlast til þess að einstaklingar og fjölskyldur axli ábyrgð á óskaplega brjálæðislegu, ég finn varla rétta orðið, frú forseti, hvernig þessir bankar gengu yfir þessar þjóðir með óhóflegum lánveitingum sem enginn sá í rauninni fyrir.

Mig langar að þakka forseta Íslands fyrir að taka af skarið í því að tala fyrir hönd Íslands. Nú þurfum við að fylgja á eftir, þingmenn og ríkisstjórnin. Þess vegna undrar mig þegar ég sé á timinn.is að hæstv. fjármálaráðherra hafi afþakkað boð um að kynna málstað Íslands fyrir Evrópuráðinu í dag. Hvernig má það vera að þegar fjármálaráðherra hafði tækifæri til að tala við fulltrúa 47 þjóða í Evrópuráðinu í dag til að halda uppi málsvörn fyrir hönd Íslands, til að koma réttum skilaboðum á framfæri gerði hann það ekki?

Frú forseti. Við þurfum í fyrsta lagi að horfa fram á við. Við þurfum að snúa vörn í sókn, þingmenn, ríkisstjórnin, þjóðin öll. Við þurfum að tala núna einu máli. (BirgJ: Heyr, heyr.) Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir þurfa að koma með okkur hinum í þá vegferð. Mér er kunnugt um að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa verið að senda skilaboð út í heim til að reyna að minnka, eða koma í veg fyrir eins og þeir vilja orða það, einhvers konar tjón. Ég hef ekki stórar áhyggjur af tjóninu en það er hins vegar mjög mikilvægt að koma réttum skilaboðum á framfæri.

Indefence hefur sent frá sér samantekt til um 300 blaðamanna matsfyrirtækja. Það er mjög mikilvægt og mjög gott. Nú eigum við líka að taka höndum saman um að koma í gegn máli sem er í utanríkismálanefnd um að kanna með málshöfðun á hendur Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Við eigum að svara núna fullum hálsi þegar sóknarfærið er til staðar og við eigum að velta fyrir okkur hvernig standi á því (Forseti hringir.) að svokallað varnarbandalag, NATO, hjálpar okkur ekki í þessari baráttu þegar ráðist er á Ísland. (BirgJ: Heyr, heyr.)