139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding á samningi um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.

676. mál
[15:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessu frumvarpi er lagt til að Alþingi heimili að fullgilt sé fyrir Íslands hönd bókun um breytingu á samningi sem er um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum milli aðildarríkja Evrópuráðsins og aðildarlanda OECD. Þessi bókun var gerð í París 27. maí 2010. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvæðum hennar verði veitt lagagildi hér á landi þegar bókunin hefur öðlast gildi að því er okkur Íslendinga varðar. Samningurinn var fullgiltur með heimild í lögum sem voru nr. 74/1996 og hann öðlaðist gildi hvað Ísland varðar í nóvember 1996.

Þetta er merkur samningur, frú forseti. Hann var upphaflega gerður til að efla alþjóðlegt samstarf í skattamálum og berjast gegn skattsvikum. Í því skyni kveður samningurinn m.a. á um gagnkvæm skipti á upplýsingum, sömuleiðis sameiginlegar skattrannsóknir, útvegun gagna og skjala og aðstoð við innheimtu skatta. Það er hins vegar alveg ljóst að samkvæmt þessum samningi er fullveldi ríkja og réttindi skattgreiðenda að fullu virt og samningurinn tryggir vernd í því skyni að gæta trúnaðar vegna þeirra upplýsinga sem kunna að verða veittar á grundvelli fullgildingar hans með samþykkt þessa frumvarps.

Tilgangurinn með gerð bókunarinnar sem óskað er heimildar af hálfu ríkisstjórnarinnar til að fullgilda fyrir Íslands hönd er að færa samninginn að þeim alþjóðlegu mælikvörðum sem gilda um upplýsingaskipti af þessum toga. Bókunin kveður t.d. á um strangari skyldur aðildarríkja til að skiptast á upplýsingum frá því sem nú er. Sérstaklega er nefnt að bókunin skyldi ríki til að veita upplýsingar þó að þær séu í vörslu banka og annarra fjármálafyrirtækja. Þetta er mikilvægt, ekki síst á þessum síðustu tímum, frú forseti, þegar ríki og ríkisstjórnir hafa freistað þess að afla upplýsinga sem hingað til hafa verið tryggilega geymdar í skjölum og skjalasöfnum banka til að geta upplýst um mál sem upp hafa komið í kjölfar þess að bankar hafa hrunið, ekki bara á Íslandi heldur líka í öðrum löndum. Það er til að auðvelda gagnkvæma aðstoð ríkja af þessu tagi sem frumvarpið er flutt af ríkisstjórninni.

Auk þess gerir bókunin þeim ríkjum sem eru hvorki aðilar að OECD né Evrópuráðinu kleift að gerast aðilar að samningnum svo fremi sem aðildarríkin samþykkja það að öðru leyti.

Ég legg til, herra forseti, að þegar þessari umræðu lýkur verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.