139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding á samningi um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.

676. mál
[15:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að ég geti fullyrt að svo sé. Þetta frumvarp er, eins og hv. þingmaður nefnir, fyrst og fremst í tengslum við alþjóðlegt samstarf um skattamál og baráttu gegn skattsvikum. Ég hef ekki litið svo á að það hefði endilega getað upplýst um ýmislegt af því meinta sviksamlega atferli sem hefur átt sér stað við að fela handhöfn eignar í hlutafélögum. Þó kann svo að vera eins og hv. þingmaður rekur sem þekkir þessi mál miklu betur en ég. Það hefði í einhverjum tilvikum verið hægt að rekja sig út frá þeim skatttengdu upplýsingum sem varða frumvarpið og samninginn, sem er andlag þess, ef menn hefðu getað í krafti heimildanna sem þar eru rakið sig út frá skattavinklum eftir mjög flóknum þráðum. Ég treysti mér þó ekki til að fullyrða það.

Ég tel hins vegar að í framtíðinni fæli þetta menn frá því að nota aðferðir og leiðir sem kunna að vera á gráu svæði. Eftir því sem fleiri lönd fullgilda samning eins og þennan með því að gerast aðilar að honum og lýsa því þar með yfir að þau muni ekki skirrast við að nota þær heimildir sem hann gefur ætti það að verka sem forvörn á þá sem hafa verið í slíkum hugleiðingum. Þetta er eitt af þeim fróðlegu rannsóknarefnum sem nefndin mun væntanlega skoða. Ég hygg að í meðferð nefndarinnar komi á fund hennar sérfræðingar sem geta hugsanlega upplýst þetta betur.

Til þess að ég undirstriki svar mitt þá treysti ég mér ekki til að fullyrða að svarið við spurningu hv. þingmanns sé jákvætt.