139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Singapúr-samnings um vörumerkjarétt.

677. mál
[15:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég flyt þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórnin leitar heimildar Alþingis til að fullgilda mjög merkilegan samning um nýmæli í vörumerkjarétti. Þetta er hinn svokallaði Singapúr-samningur sem var gerður á ríkjaráðstefnu á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar 27. mars 2006. Ég get þess líka að samhliða þessari tillögu verður flutt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum, sem búið er að leggja fram að því er ég best veit af hálfu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hnykkir einmitt í íslenskan rétt nauðsynlegum breytingum til að við getum notfært okkur og staðið við það sem er að finna í þessum samningi.

Singapúr-samningurinn er byggður á þeim samningi sem ég nefndi áðan, um vörumerkjarétt, sem Ísland hefur ekki verið aðili að en hefur mun víðara gildissvið en hinn upphaflegi samningur. Aðildarríkin voru þegar síðast var skoðað orðin 24 talsins. Þessi samningur var undirritaður af okkar hálfu fyrir röskum fjórum árum. Nú eru menn að slá hann í gadda inn í hið íslenska réttarkerfi með því að flytja hér þingsályktunartillögu um fullgildingu hans. Eftir því er óskað af markaðnum.

Markmið þessa samnings er í grófum dráttum að koma á samræmdu alþjóðlegu skipulagi fyrir skráningu vörumerkja. Þessi samningur tekur tillit til breytinga sem hafa orðið í samskiptum og hann gerir t.d. ráð fyrir því að ef einhver vill leggja inn umsókn um vörumerki þurfi hann ekki lengur að koma með það á pappír eða í annarri gerð sem hægt er að festa hönd og fingur á heldur geti hann gert það með rafrænum hætti.

Þessi samningur tekur til allra merkja sem er heimilt að skrásetja í aðildarríkjum samningsins. Þetta er t.d. í fyrsta sinn — og það eru nýmælin sem ég vísaði til í upphafi máls míns — sem vörumerki sem kalla má óhefðbundin eru viðurkennd í alþjóðasamningi um vörumerki. Menn geta þá velt því fyrir sér hvað séu óhefðbundin vörumerki. Svarið er nokkuð fróðlegt. Það eru t.d. heilmyndir og myndir í þrívídd en samningurinn tekur líka til staðsetningar og hreyfingar merkja og sömuleiðis ósýnilegra merkja, sem dauðlegum mönnum kann nú kannski að virðast dálítið merkilegt. Það eru merki sem er miðlað í krafti annarra skilningarvita en sjónar, þ.e. vörumerki sem að einhverju eða öllu leyti byggjast á hljóði, lykt, bragði eða snertimerkjum.

Þannig vindur nú tímanum fram og tækninni sem honum fylgir innan ramma vörumerkja eins og annarra mannanna hluta. Í þingsályktunartillögunni er óskað eftir heimild til að geta staðfest þennan samning vegna þess að íslenskir hönnuðir sem hafa getið sér gott orð, m.a. á þessu sviði, munu í krafti staðfestingar hugsanlega sjá fram á betri tækifæri til að koma góðum afurðum sínum og sköpunarverkum á framfæri erlendis.

Með þessum samningi er komið á sérstöku þingi aðildarríkja sem getur breytt reglugerðum sem eru settar á grundvelli samningsins. Þannig má segja að komið sé á sveigjanleika í vernd vörumerkja. Það verður því auðveldara í framtíðinni að bregðast við breyttum aðstæðum og kannski sérstaklega nýrri tækniþróun sem leiðir mögulega til þess að nýjar gerðir vörumerkja koma fram. Við þurfum þá ekki að samþykkja sérstök lög, hvað þá að gera nýja samninga eftir að búið er að ná þeim sveigjanleika sem felst í þessum.

Ég legg til, herra forseti, að nær þessari umræðu slotar verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.