139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[15:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér leita ég heimildar Alþingis fyrir ríkisstjórnar hönd til að fullgilda samning sem hefur verið umdeildur en einnig þótt mjög merkur og brjóta að mörgu leyti í blað en hann felur í sér réttinn til aðgangs að upplýsingum og sömuleiðis þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang hans að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Þetta er hinn svokallaði Árósasamningur sem við þingmenn höfum margoft rætt um hér allar götur frá því ég kom inn á þing eða upp úr því, 1991, ekki síst á þeim tíma þegar ég var umhverfisráðherra fyrir margt löngu á seinni parti síðustu aldar. Samningurinn dregur nafn sitt af því að hann var samþykktur í hinni víðfrægu dönsku borg, Árósum, á fjórðu ríkjaráðstefnunni sem haldin var um þessi mál. Það þurfti marga fundi til að komast að þessari niðurstöðu en samningurinn var samþykktur 1998.

Samhliða þessari tillögu flytur hæstv. umhverfisráðherra frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að hægt sé að standa við fullgildingu Árósasamningsins ef af verður. Meðal annars. flytur hæstv. ráðherra frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þær lagabreytingar sem er að finna í því frumvarpi eru nauðsynlegar til að hægt sé af Íslands hálfu að standa við skuldbindingarnar sem samningurinn leggur þeim ríkjum sem aðild að honum eiga á herðar.

Þessi samningur er ólíkur öðrum samningum sem eru í gildi um umhverfismál. Hann tengir í fyrsta lagi umhverfisrétt og mannréttindi. Í öðru lagi viðurkennir hann að menn hafi skyldum að gegna gagnvart komandi kynslóðum þannig að í reynd felur hann í sér rétt óborinna einstaklinga að því er umhverfismál varðar. Samningurinn staðfestir að aðild allra hagsmunaaðila sé nauðsynleg til að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar og hann tengir saman ábyrgð stjórnvalda og umhverfisvernd. Í samningnum er athyglinni líka beint að því sem kalla má gagnverkandi áhrif almennings og stjórnvalda í lýðræðislegu samhengi. Í honum er t.d. sú skylda lögð á herðar samningsaðilum að þeir verða að ábyrgjast rétt til aðgangs að upplýsingum til þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgangs hans að því sem kalla má réttláta málsmeðferð í umhverfismálum í samræmi við ákvæði samningsins, allt í þeim tilgangi að stuðla að verndun réttinda hvers einstaklings af núlifandi og einnig komandi kynslóðum til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð borgara.

Að þessu leyti eins og ég sagði áðan finnst mér samningurinn merkilegur vegna þess að hann leggur á okkar herðar ákveðnar skyldur varðandi óborna einstaklinga. Í þessu er ákveðin póetísk fegurð sem ég a.m.k. skynja mjög djúpt.

Segja má, frú forseti, að Árósasamningurinn veiti almenningi réttindi sem eru þríþætt. Þau réttindi mynda hinar þrjár stoðir samningsins. Í hinni fyrstu er sú skylda lögð á herðar samningsaðilanna að tryggja almenningi upplýsingar um umhverfismál með ákveðnum skilyrðum. Þannig er tekið fram að upplýsingarnar skuli gerðar aðgengilegar eins fljótt og hægt er nema að magn og flókin gerð upplýsinganna réttlæti að frestur til að veita þær verði framlengdur. Í þeirri stoð er einnig kveðið á um í hvaða tilvikum megi hafna beiðni um aðgang að upplýsingum, t.d. ef viðkomandi stjórnvald sem fær beiðnina hefur þær ekki undir höndum. Sömuleiðis er fjallað um söfnun og dreifingu slíkra upplýsinga m.a. í þeim tilgangi að gera þær sem aðgengilegastar.

Önnur stoðin skyldar aðildarríkin til að tryggja almenningi þátttöku í ákvarðanatöku sem snertir umhverfið. Ákvæðin sem undir þessa stoð falla fela í sér að upplýsa skuli almenning sem málið varðar um fyrirhugaða starfsemi, um umsókn um leyfi, jafnframt um fyrirhugað ákvarðanatökuferli og veita samkvæmt samningnum sanngjarna fresti til að gefa almenningi kost á að gera athugasemdir og koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin. Þannig skal almenningi gert kleift að taka þátt mjög árla í ferlinu þegar allir kostir eru fyrir hendi og hægt er með góðum rökum að segja og sanngirni að um virka þátttöku geti verið að ræða.

Þessi stoð, önnur stoðin í samningnum, felur í sér að þar til bæru stjórnvaldi ber að veita þeim sem málið varðar aðgang að öllum upplýsingum sem skipta einhverju máli varðandi ákvarðanatökuna. Hér er því um mjög víðtæka réttindagjöf að ræða. Stjórnvöld tryggja líka að þegar ákvarðanir eru teknar verði tekið eðlilegt tillit til þeirrar niðurstöðu sem liggur fyrir eftir aðkomu almennings og jafnframt að almenningur sé upplýstur um ákvörðun þegar hún liggur fyrir og rökin sem liggja að baki hennar. Þá skulu þeir sem eru aðilar að samningnum, vitaskuld innan ramma landslaga og eftir því sem kleift er með sanngirni og eftir því sem viðeigandi er, beita þessum aðferðum t.d. varðandi ákvarðanir um hvort leyfa beri að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið af ásettu ráði. Almenningi skal líka gert kleift að koma að ákvarðanatöku varðandi skipulag, áætlanir og stefnumótun um umhverfismál og að undirbúningi reglna sem eru bindandi ef þær kunna að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið.

Með þriðju stoðinni styður samningurinn þau réttindi sem ég hef lýst undir fyrstu og annarri stoð hans með ákvæðum um aðgang að réttlátri málsmeðferð sem stuðlar vitaskuld að auknu vægi samningsins. Það má því kannski segja að þriðja stoðin sé með vissum hætti burðurinn undir hinum fyrri tveimur. Ríkjunum og þeim sem eru aðilar að samningnum er gert að tryggja að öllum sé opinn endurskoðunarleið fyrir dómstólum eða öðrum hlutlausum og óháðum aðila, vitaskuld innan marka laganna sem ríkja í hverju landi, að því er varðar ákvarðanir stjórnvalda sem tengjast upplýsingum samkvæmt samningnum. Almenningi skal þannig tryggð leið til að fá fram endurskoðun eða til að vefengja lögmæti ákvarðana, aðgerða eða þá aðgerðaleysis sem segja má að falli undir ákvæði samningsins og varðar beinlínis þátttöku almennings sem málið varðar til ákvarðanatöku um einhverja tiltekna starfsemi. Hvað teljast svo nægjanlegir hagsmunir ber að ákvarða eftir landslögum og ávallt með það að markmiði að veita almenningi sem málið varðar víðtækan aðgang að réttlátri málsmeðferð.

Það ber að taka fram að samkvæmt þessum samningi skulu hagsmunir frjálsra félagasamtaka um umhverfisvernd sem uppfylla ákveðin skilyrði þó ávallt teljast nægjanlegir. Samningsríkin skulu líka tryggja almenningi sem uppfyllir skilyrði laga aðgang að stjórnsýslu eða dómstólameðferð til að geta krafist þess að aðgerðir eða aðgerðaleysi af hálfu einstaklinga eða stjórnvalda sem ganga gegn ákvæðum landslaga um umhverfið verði tekið fyrir. Sömuleiðis skulu tryggð virk úrræði almennings til að beita framangreindum rétti sínum.

Eins og þeir skilja og skynja sem hlýtt hafa á mál mitt er hér um að ræða ansi djarftækan og róttækan samning sem ég veit að mörgum þykir gríðarlegur fengur að og margir hafa barist fyrir árum saman. Þó veit ég líka að jafnvel í hópi hinna víðsýnu og umburðarlyndu hv. þingmanna leynast nokkrir sem tíminn hefur leitt í ljós að kunna að vera í einstökum atriðum andstæðir því sem hér hefur verið lagt fram og þeirrar heimildar óskað sem felst í þessari þingsályktunartillögu.

Ég legg svo til, herra forseti, að þegar umræðunni slotar verði þessari merku tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.