139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[15:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gerir að umtalsefni að sér þyki skrýtið að þessi tillaga skuli flutt til að heimila staðfestingu á þessum samningi án þess að nauðsynlegar lagabreytingar séu reifaðar samhliða eða þá strax á eftir. En þó að hv. þingmaður sé ekki allra karla elstur hér veit hann að þessi háttur er yfirleitt hafður á. Ég man ekki eftir því að menn hafi sérstaklega tengt saman fullgildingu og síðan þau lög sem þarf til að útfylla samninginn. Það kann að vera að hv. þingmaður viti af því en það er ekkert óeðlilegt við það.

Hv. þingmaður spyr mig sömuleiðis hvort sú leið sem valin er í frumvörpum hæstv. umhverfisráðherra, sem verða þá rædd á þessu þingi, gangi lengra en gert er í öðrum löndum. Mér er ekki kunnugt um það en þá verð ég líka að gera þá ærlegu játningu að ég hef ekki nema bara skimað þau frumvörp rétt sisona. Ég þekki hins vegar þennan samning og hef tekið þátt í umræðum um hann nokkrum sinnum á Alþingi á umliðnum árum. Það hefur verið mikið keppikefli margra, umhverfisverndarsinna og annarra, að ná þessu máli fram vegna þess að eins og hv. þingmaður bendir á eykur það stórlega rétt umhverfisverndarsinna og líka samtaka. Ég held þó að ég hafi bara af mikilli samviskusemi greint nákvæmlega frá því sem er að finna í samningnum. Ég sagði líka í minni fyrstu setningu, þegar ég hóf framsögu mína, að þetta væri umdeilt mál. Ég hef ekki gengið þess dulinn í þessum sölum og umræðum að svo sé.

Ég treysti mér ekki til að fullyrða um það hvort þetta muni endilega lengja fresti — það er rétt hjá hv. þingmanni að þeir hafa verið bagalega langir. Ég hef þó í þeim ráðuneytum þar sem ég hef gegnt forstöðu gert mitt til að draga úr þeim og tókst það í einu ráðuneyti.