139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[15:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil líka hvetja hæstv. ráðherra til að kynna sér þetta betur vegna þess að samkvæmt mínum upplýsingum er verið að ganga mun lengra í innleiðingu þessa samnings en önnur ríki hafa gert. Eftir því sem mér er tjáð var það gert í Hollandi en síðan hafi verið snúið til baka vegna þess að þetta þótti allt of svifaseint.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað finnst honum gagnvart þessum samningi hér og þeim frumvörpum sem liggja fyrir að þeir aðilar sem ekki hafa lögvarin réttindi geti kært allt milli himins og jarðar, ef ég orða það nú þannig? Maður sér það alveg fyrir sér að slíkt gerist og strax koma upp í hugann nöfn á ákveðnum aðilum sem mundu væntanlega gera það í því ferli sem fram undan væri.

Mig langar líka að kalla eftir svörum frá hæstv. ráðherra, hvort ekki væri nær fyrir stjórnsýsluna að taka sig betur á til þess að sinna þá þeim kröfum sem gerðar eru til hennar í dag með úrskurði. Nú veit hæstv. ráðherra að sérstaklega eitt ráðuneyti, umhverfisráðuneytið, hefur staðið sig afskaplega illa í því og eins hæstv. utanríkisráðherra sem margsinnis hefur farið fram úr þeim frestum sem gefnir eru. Hér er klárlega verið að bæta við fleiri flækjustigum og fleiri kærum. Væri ekki skynsamlegra að við næðum þó tökum á því sem við værum að vinna með í dag? Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af því að þeir verði þá enn lengri þeir frestir sem um er að ræða, sem muni geta haft það í för með sér að hægja á eðlilegri atvinnuuppbyggingu sem ég og hæstv. utanríkisráðherra erum sennilega sammála um að sé mjög mikilvægt að fari hér í gang. Mér finnst að það þurfi að ræða þetta út frá þessum sjónarmiðum.

Að lokum vil ég hvetja hæstv. utanríkisráðherra til þess að kynna sér þetta betur því að eftir mínum upplýsingum gengur þetta mun lengra en annars staðar er gert og það finnst mér ekki gott.