139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[15:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt, sem fram kom í framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra, að þetta mál hefur áður komið hér til umræðu og umfjöllunar á þingi. Mig minnir að það hafi síðast verið 2005 en það kann að vera að mér skjöplist eitthvað nákvæmnin í þeim efnum. (Gripið fram í.)

Tillagan sem hér er til umræðu á rætur sínar að rekja til Árósasamningsins frá 1998 sem Ísland átti aðild að og þetta tiltekna þingmál snýst um fullgildingu samningsins. En svo, eins og fram kom í umræðum áðan, eru á leiðinni inn í þingið, og verða hugsanlega tekin til umræðu á næstu dögum, lagafrumvörp sem fela í sér að efnisreglur byggðar á samningnum verða teknar í íslenskan rétt. Í ljósi þess er kannski eðlilegra að geyma umræðu sem snýst um hin eiginlegu efnisatriði eða útfærsluatriði þangað til umræða um frumvörpin kemur en það er þó alveg þarft að nefna, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gerði hér áðan, að þarna kann að vera um að ræða, í þeim frumvörpum sem hæstv. umhverfisráðherra hefur lagt fram, útfærslu sem ber að gjalda nokkurn varhuga við.

Það má segja að undir þau meginsjónarmið sem felast í Árósasamningnum megi taka. Um er að ræða samning sem hefur það að markmiði að gefa almenningi aukinn rétt í sambandi við ákvarðanatöku um umhverfismál, bæði hvað varðar aðgang að upplýsingum og hvað varðar möguleika til að leita úrlausnar mála í ágreiningsmálum. Þarna er um að ræða, í samningnum sjálfum og þar af leiðandi í þingsályktunartillögunni, ákveðnar stefnumarkandi yfirlýsingar, ef svo má segja, en það er eins og svo oft að það er kannski fyrst og fremst þegar kemur að útfærslunni eða aðferðinni við innleiðingu þeirra meginsjónarmiða sem fram koma í samningnum sjálfum sem ágreiningsefnin koma upp. Þess vegna gefur þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra kannski ekki svo mikið tilefni til langra eða harðvítugra deilna hér en án þess að ég hvorki lofi því né hóti þá hygg ég að umræður verði meiri og skoðanir skiptari um þá útfærslu sem finna má í frumvörpum hæstv. umhverfisráðherra. Þar munu koma til sjónarmið eins og þau sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi hér áðan varðandi það hversu langt er gengið í þeirri reglu sem kölluð hefur verið actio popularis, um málshöfðunarrétt hvers sem er í tilteknum tilvikum, og fleiri slík atriði þar sem tillögur hæstv. umhverfisráðherra virðast í fljótu bragði ganga lengra en nauðsynlegt er samkvæmt ákvæðum Árósasamkomulagsins sjálfs og lengra en gert er í ýmsum nágrannalöndum. En um þær nánari útfærslur þarf kannski ekki að fjölyrða hér.

Í þessari ræðu ætlaði ég bara að vekja örstutt athygli á þessum sjónarmiðum og jafnframt vísa til þess að efnisumræða verði meiri í umræðum um þau frumvörp sem væntanleg eru á dagskrá þingsins. Ég vildi hins vegar beina því til hv. utanríkismálanefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, þessa þingsályktunartillögu hæstv. ráðherra, að það verði nokkur samvinna, annars vegar á vettvangi utanríkismálanefndar og hins vegar á vettvangi umhverfisnefndar, sem fær þau frumvörp sem umhverfisráðherra hefur flutt, um afgreiðslu þessara mála þannig að það verði gert í einhverju samhengi. Ekki endilega þannig að efni tillögunnar verði breytt en það hefur hins vegar ákveðin hagkvæmnissjónarmið á bak við sig og er einfaldlega skynsamlegt í málum af þessu tagi að þessar tvær nefndir vinni náið saman þegar um er að tefla mál sem eru jafnnátengd og hér um ræðir.

Ég legg því áherslu á að hv. utanríkisnefnd fylgist vel með þeirri efnislegu vinnu sem mun fara fram í umhverfisnefnd af því að eðli málsins samkvæmt hefur utanríkisnefnd fyrst og fremst skoðað formhlið mála í sambandi við fullgildingu alþjóðasamninga af þessu tagi en einstakar fagnefndir þingsins hafa frekar lagst í efnisþættina. Ég beini þeim tilmælum til hv. formanns utanríkismálanefndar og utanríkismálanefndar sem slíkrar að þetta sjónarmið verði haft í huga. Sitjandi í umhverfisnefnd veit ég að þar er áhugi á málinu mikill þó að skoðanir kunni að vera skiptar.