139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[16:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu um þann gagnmerka samning, Árósasamninginn. Hann flytur þegnum, ef samþykktur verður og innleiddur í íslenskan rétt, töluverðar nýjar réttarbætur. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni er í honum að finna ákveðna ljóðræna fegurð að því marki sem óvanaleg er í samningum sem við erum að fullgilda að hann tekur til réttar til handa óbornum einstaklingum. Það finnst mér skipta máli.

Það sem ég kem hér aðallega upp til að þakka í lok umræðunnar er sú staðreynd að þó að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem hafa talað einir þrír í umræðunni, séu gagnrýnir á tiltekna hluti í samningnum eru þeir þó, ef marka má orð hv. þm. Birgis Ármannssonar, sammála meginmarkmiðunum. Ég skil mál þeirra þannig að þetta sé spurning um útfærslu. Ég skil það sem þeir segja í þá veru að þeir séu ekki á móti því að sú réttarvernd sem er að finna í samningnum sé innleidd í íslenska löggjöf. Þeir vilja hins vegar stemma stigu við því að það verði með þeim hætti að það kunni að ganga út fyrir ramma samningsins. Þannig skildi ég t.d. hv. þingmann sem talaði áðan, Kristján Þór Júlíusson, og félaga hans, Birgi Ármannsson. Ég geri þá ærlegu játningu að ég hef ekki stúderað frumvörpin sem fylgja þessu, þau tvö sem hæstv. umhverfisráðherra mun fram leggja. Það er hugsanlegt að þeir hafi gert það og séu ekki sammála því að þar séu tillögur að lagabreytingum rammaðar innan þeirra vébanda sem samningurinn veitir. Þetta er eitt af því sem menn munu auðvitað skoða mjög vel í nefndinni.

Ég er sammála þeim þingmönnum sem hér töluðu um að þetta þarf að skoðast í fleiri nefndum en bara utanríkismálanefnd. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gat þess að það væru nokkrir áhugamenn um þetta efni í hv. umhverfisnefnd. Það gleður mig. Ég hef sjálfur verið áhugamaður um ákveðna þætti þessa samnings.

Þegar ég sem utanríkisráðherra flyt þingsályktunartillögur sem fela í sér beiðni til Alþingis um heimild til að staðfesta samninga sem eru með þeim hætti að það þarf síðan að útfæra þá í löggjöf, hef ég yfirleitt haft þann hátt á að flytja ekki mjög djúpa framsögu fyrir því. Ég hef tæpt á og teiknað upp grófustu útlínur eins og t.d. á þeim tveimur samningum sem ég mælti fyrir hér fyrr í dag. Ég gerði undantekningu í þessu tilviki. Ástæðan er sú að þetta er umdeildur samningur. Við höfum mörgum sinnum tekið þátt í umræðu um hann hér og það hafa verið átök um hann. Þess vegna taldi ég það rétt að þessu sinni að ég tíndi fram allt það í samningnum sem er til verulegra breytinga, því að þetta er róttækur samningur, þannig að enginn velktist í vafa um að hér væri verið að fara fram með samning sem kynni að valda mjög miklum breytingum og eðlilega, eins og allt sem róttækt er, kallar á sterk andsvör.

Mér þykja hv. þingmenn vera hóflegir í málflutningi sínum hér í dag sem gefur væntingar um, eins og hv. þingmaður sagði undir lok síns máls, að það væri hægt að ná um þetta sátt og málið væri þess eðlis að það ætti ekki að leiða til þess að ófriður skapaðist. Ég er sammála honum, ég held að það sé hægt. Ég held að það sé hægt að leiða þessar réttarbætur inn í íslenska löggjöf án þess að það skapi meiri háttar úlfúð. Auðvitað verður einhver núningur í vinnslu svona mála, það gerist alltaf. Menn verða þá að finna hjá sér þroska og mannvit til þess að reyna að eyða því. Ég held að sé óþægilegt að löggjöf af þessu tagi sé samþykkt í stríðri baráttu. Af hverju? Vegna þess að þetta tengist málaflokki sem við höfum verið að slást um allt of lengi. Það er ástæðan fyrir því.

Það þarf með einhverjum hætti að ná fram sammæli um hvernig svona bætur sem tengjast þessum málaflokki eru innleiddar í lög. Ég er þeirrar skoðunar að hinir ósýnilegu múrar sem kannski af hálfu leyti skriðu hér úr þinggólfinu í umræðunum í dag stafi af því að stjórnsýslan hefur ekki staðið sig vel í því t.d. að framfylgja lögum varðandi fresti í málum af þessu tagi. Ég er bara sammála hv. þingmönnum um að þar er brestur á. Þegar ég var iðnaðarráðherra reyndi ég að bæta þar úr og tókst það að nokkru leyti, ekki að öllu leyti, ég verð bara að viðurkenna það. Þar spilaði tvennt inn í. Það er auðvitað skortur á atgervi stundum og fjármagni til að ljúka svona. Hitt er, svo ég bara segi það, að mér fannst oft sem embættismenn bæru of litla virðingu fyrir þeim rétti sem almenningi er líka gefinn með því að tímafrestirnir eru rammaðir inn með þessum hætti. Í því felst líka réttur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hef sagt þetta. Ég held að þetta sé kannski ástæðan fyrir því að menn nálgast þetta mál af varúð.

Ég vil að lokum þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Af því að hugsanlegt er að hv. þm. Birgir Ármannsson hafi horfið úr salnum þegar ég fjallaði einmitt um hans ræðu hans, en ég þakkaði honum fyrir að hann tók undir meginmarkmiðin um leið og ég geri mér algjörlega grein fyrir því að þó að hv. þingmenn taki undir meginmarkmiðin og vilji innleiða þau í réttinn hafa þeir sett hér fram þá skoðun að þeir telja að bæði þau frumvörp sem fylla út samninginn gangi lengra en samningurinn leyfir. Það kemur mér á óvart en menn skoða það þá í nefndum.

Sömuleiðis kom það fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að hann væri mjög eindregið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að hafa allan umbúnað málsins í lokafrágangi þingsins með þeim hætti að það tefði ekki um of fyrir því sem hann sagði nauðsynlega atvinnuuppbyggingu. Nú vita hv. þingmenn að ég er mikill stuðningsmaður hennar. Ég er líka þeirrar skoðunar að við þurfum að ná ákveðinni sátt milli hinnar brennandi ástríðu margra til að byggja upp og sams konar jafnheitrar ástríðu annarra um að það verði ekki gert á kostnað umhverfisins. Við þurfum, það er hlutverk okkar í þinginu, að reyna að finna þá málamiðlun. Ég er ekkert ofsalega svartsýnn á að það takist, ég held að það sé kleift. En vitaskuld mun það á einhverjum stigum máls kosta blóð, svita og hugsanlega eitthvað af tárum.