139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[16:20]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það var ánægjulegt að sjá þann dýrðarljóma sem færðist yfir ásjónu hæstv. ráðherra þegar hann rifjaði upp afrek sín í umhverfisráðuneytinu forðum tíð. Ég get alveg vottað að þar var oft gengið snarlega til verka.

Ég vil minna á það í ljósi þess sem hæstv. ráðherra sagði, að stjórnsýslan hefði ekki staðið sig, að stjórnsýslan hjá okkur í ráðuneytunum og stofnunum vinnur á grunni þeirra laga sem við setjum á Alþingi. Það er sá hluti sem við hv. þm. Birgir Ármannsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd, leggjum áherslu á hér, að það lagaumhverfi sem við búum þessum málum á grundvelli þess að innleiða Árósasamninginn verði ekki með þeim hætti að gera stjórnsýslunni enn erfiðara fyrir með að vinna þau verk sem henni eru ætluð.

Það var fyrst og fremst á þeim grunni sem ég kom upp í ræðu og í andsvar við hæstv. ráðherra, en ég þakka honum væntan stuðning við að gera Ísland einfaldara, eins og margar ríkisstjórnir hafa lagt sig fram um að vinna að.