139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fríverslunarsamningur EFTA og Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa.

682. mál
[16:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er mælt fyrir tillögu um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja EFTA og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa sem sameiginlega nefnast Flóabandalagið. Hann var undirritaður í Hamar í Noregi 2009. Jafnframt er leitað heimildar til fullgildingar á landbúnaðarsamningi milli Íslands og hinna svokölluðu Flóabandalagsríkja sem undirritaður var sama dag.

Á undanförnum árum hafa verðmæti vöruinnflutnings til aðildarríkjanna verið á bilinu 326–564 millj. kr. Mest hefur verið flutt út til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Sádi-Arabíu. Það er athyglisvert að á síðustu árum hefur útflutningur okkar fyrst og fremst samanstaðið af úrgangi og leifum frá orkufrekum iðnaði en árið 2010 var þó mest flutt út af undanrennudufti, þotueldsneyti, lyfjum, ýmiss konar íblöndunarefnum fyrir sement, kísiljárn o.s.frv.

Það er athyglisvert, frú forseti, að Íslendingar flytja út þotueldsneyti til olíuframleiðsluríkjanna. Það stafar af því að við stöndum fyrir umfangsmiklum flugrekstri í þessum ríkjum og í gegnum það verðum við með sérkennilegum hætti útflutningsland á þotueldsneyti til hinna miklu olíuríkja Sádi-Arabíu og Sameinuðu furstadæmanna við Persaflóa.

Vöruinnflutningur frá aðildarríkjum Flóabandalagsins er miklu minni en nemur útflutningi okkar. Hann var 84 milljónir árið 2010 og þá var mest flutt inn frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Sádi-Arabíu.

Ég gat um flugreksturinn sem er snar þáttur í samskiptum sumra þessara ríkja við Ísland á viðskiptasviðinu. Þjónustuviðskiptin milli Íslands og þessara ríkja eru töluverð. Þau eru mest við Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Útflutningur á þjónustu frá Íslandi til Sádi-Arabíu nam árið 2009 16,3 milljörðum kr. og innflutningur um 1,1 milljarði kr. Á sama ári nam útflutningur á þjónustu frá Íslandi til Sameinuðu arabísku furstadæmanna um 1,9 milljörðum kr., innflutningurinn aftur á móti frá þessum furstadæmum var 860 millj. kr. Eins og ég sagði áðan í tengslum við þotueldsneytið þá skýrist þessi mikli útflutningur til Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna að langstærstum hluta af flugþjónustunni.

Fríverslunarsamningurinn við Flóabandalagið sem ég er hér að reifa kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður frá gildistöku samningsins eða í sumum tilvikum að loknu fimm ára aðlögunartímabili.

Þessi fríverslunarsamningur er af svokallaðri annarri kynslóð slíkra samninga. Hann inniheldur þess vegna, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, hugverkaréttindi, samkeppnismál og opinber innkaup. Þar er sömuleiðis að finna ákvæði um stofnanir sem samningnum tengjast og ákvæði um lausn ágreiningsmála.

Landbúnaðarsamningurinn sem gengið var frá sama dag er viðbótarsamningur. Hann er eins og sá sem ég reifaði áðan gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna við Flóabandalagið. Hann er sérstakur að því leyti, eins og með slíka samninga, að viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir hann. Hann kveður á um að tollar á tilteknar landbúnaðarafurðir verði lækkaðir eða felldir niður. Aðildarríki Flóabandalagsins munu þannig fella niður tolla á lifandi hross og íslenskt lambakjöt en Ísland mun fella niður tolla á kaffi, kakó, ávaxtasafa og ýmsar matjurtir.

Ég legg til, frú forseti, að þessu máli verði vísað til hv. utanríkismálanefndar þegar umræðu lýkur.