139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fríverslunarsamningur EFTA og Perús og landbúnaðarsamningur Íslands og Perús.

683. mál
[16:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er sömuleiðis mælt fyrir tillögu sem felur í sér heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning millum EFTA og Perús. Ekki hafa verið mikil viðskipti millum þessara tveggja landa á síðustu árum en þau hafa þó aukist á síðustu fjórum árum úr 2 millj. kr. í 80 millj. kr. Bráðabirgðatölur sýna að útflutningur til Perús var á síðasta ári kominn í 80 milljónir. Það er athyglisvert að mest af því sem við flytjum út til Perús eru fiskinet. Innflutningur frá Perú til Íslands hefur hins vegar farið úr 165 í 270 millj. kr. síðustu þrjú ár, þar hafa grænmeti og búklýsi verið mikilvægustu innflutningsvörurnar.

Samningurinn kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Tollar á sjávarafurðir og iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður við gildistöku eða fara stiglækkandi á níu ára aðlögunartímabili.

Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn. Hann kveður á um að tollar munu m.a. falla niður á lifandi hross frá gildistöku en tollar á íslenskt lambakjöt falla að fullu niður að loknum fimm til níu ára aðlögunartíma. Við munum fella niður tolla á ýmsar tegundir lifandi plantna eins og ákveðnar tegundir afskorinna blóma, jólatré, ýmsar matjurtir og ávaxtasafa.

Frú forseti. Ég hef nú lokið við að mæla fyrir tillögu um heimild til að fullgilda þennan samning við Perú og legg til að þessari tillögu verði vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.