139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fríverslunarsamningur EFTA og Úkraínu og landbúnaðarsamningur Íslands og Úkraínu.

685. mál
[16:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Áfram stíg ég ölduna sem fríverslunarsamningarnir fljóta á einn af öðrum, og leita með þessari tillögu til þingsályktunar eftir heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja EFTA og Úkraínu. Hann var undirritaður af okkar hönd í Reykjavík í júní á síðasta ári. Eins og í tilvikum fyrri samninga er hér sömuleiðis leitað heimildar til að fullgilda landbúnaðarsamningi milli Íslands og Úkraínu sem undirritaður var sama dag.

Samningur þessi við Úkraínu er mikilvægur til að bæta aðgang fyrirtækja í EFTA-ríkjunum, þar á meðal íslenskra, á markaðnum þar. Hann mun draga úr eða afnema viðskiptahindranir og bæta þar með samkeppnisstöðu fyrirtækja í EFTA-ríkjunum. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess með tilliti til framtíðarhagsmuna Íslands að staðfesta þennan samning. Úkraína er gríðarlega fjölmennt ríki og á að ég hygg glæsta framtíð fyrir höndum. Þar blasir við að ríkið er að rífa sig aftur úr tíma forneskju og afturhalds í stjórnarháttum. Þar fer lýðræðið heldur fram á veg þótt stundum hafi kannski sumum fundist að það mætti gerast hraðar, en það er alveg ljóst að þarna er að finna framtíðarmarkaði fyrir Íslendinga. Þess vegna er mikilvægt að við ráðumst í að gera samninga af þessu tagi.

Fyrst verið er að tala um viðskipti við Úkraínu er rétt að nefna að norrænir menn áttu að fornu mikil viðskipti við hið forna Garðaríki sem m.a. stóð í Úkraínu. Um Úkraínu lágu viðskiptaleiðir víkinga á sínum tíma og þeir sigldu þar eftir ám og gerðu garðinn frægan svo um var skrifað og miklar sögur stóðu af.

Þessi fríverslunarsamningur kveður á um lækkun og niðurfellingu tolla á ýmsar iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Athyglisvert er og mikilvægast fyrir okkur að tollar á helstu sjávarafurðir falla niður frá gildistöku samningsins eða eftir að fimm til tíu ára aðlögunartímabili er lokið. Sama gildir um iðnaðarvörur frá Íslandi.

Samningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga. Hann inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og sömuleiðis mikilvæg ákvæði um lausn ágreiningsmála.

Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Úkraínu er síðan viðbótarsamningur. Hann er gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Úkraínu.

Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir hann eins og þá landbúnaðarsamninga sem ég hef lagt fyrir þingið í dag. Úkraína mun t.d. fella niður tolla á lifandi hross. Tollar á íslenskt lambakjöt falla að fullu niður að loknum fimm ára aðlögunartíma. Við munum fella niður tolla á ýmsar matjurtir og ávaxtasafa.

Ég legg til, frú forseti, að þegar þessari umræðu er lokið verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar til umfjöllunar.