139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2011.

739. mál
[17:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar síðustu orð hæstv. ráðherra, sem ég þakka svörin, er mér alls ókunnugt um ferðir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það virðist oft vera þannig að það fari bara eftir því hvernig þessi ágæti ráðherra vaknar þann morgunninn hvað honum dettur í hug að gera. Ég hef oft minnst á það í umræðum á þingi að það er mjög sérkennilegt það alræðisvald sem sumum hæstv. ráðherrum er falið með reglugerðarheimildum, til að mynda þegar tekin er ákvörðun, t.d. um heildarúthlutun aflamarks í kvótum, alveg sama hvort það er lúða eða eitthvað annað, bíður þingheimur spenntur eftir því að vita hvaða tillögu hæstv. ráðherra leggur fram. Hann þarf ekki að bera neitt undir þingið.

Ég hef haft verulegar áhyggjur af haukalóðaveiðum eftir umræðuna í fyrra. Ef hugmyndin er að sporna við veiðum og vernda lúðustofninn verður það ekki gert með því að banna haukalóðaveiðar vegna þess að smálúðan vegur í stykkjatali mjög mikið í þeirri veiði. Það mundi ekki gagnast lúðustofninum, tel ég. Það væri mikil afturför ef menn ætluðu að gera það með þeim hætti. Það er hins vegar algjörlega óþolandi að hafa þessa vá alltaf hangandi yfir sér vegna þess að lúðan er ekki kvótasett tegund. Einhverjir útgerðarmenn gætu hugsanlega náð sér í tekjur og atvinnu, sem ekki veitir af því í dag, með því að fara að stunda haukalóðaveiðar. Það er óþolandi að það skuli vera í umræðunni og vofa yfir. Það gerir það að verkum að sumir hafa ekki treyst sér til að leggja út í mikinn kostnað til að stunda haukalóðaveiðar. Það er líka algjörlega óþolandi að það geti gerst með engum fyrirvara, að það gerist bara þann dag sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur það fram, það sé enginn tími til umhugsunar eða neins.

Ég treysti því á það sem hæstv. ráðherra sagði áðan í andsvari sínu, að hann hafi eftirlit með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þannig að hann geri enga vitleysu gagnvart haukalóðaveiðum, eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur auga með honum í aðildarumsókninni að Evrópusambandinu.