139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Tillagan byggir á þeim meginforsendum að eitt af grundvallarhlutverkum stjórnvalda sé að tryggja öryggi þjóðarinnar og það sé farsælast að sem breiðust sátt og samstaða sé jafnan um þá stefnu sem er fylgt til að ná því markmiði. Þingið hefur verið upplýst um þessi áform mín um alllangt skeið. Ég gerði á sínum tíma þinginu grein fyrir því að ég teldi að í kjölfar breyttra aðstæðna á alþjóðavettvangi og breytinga innan lands sem fólu í sér niðurlagningu Varnarmálastofnunar og stofnun nýs innanríkisráðuneytis, auk áhættumatsskýrslu ráðuneytisins sem kom út árið 2009, væri tímabært að ráðast í stefnumótun af þessu tagi. Ég tók það mjög skýrt fram að það væri skoðun mín að sú stefna ætti í senn að byggjast á herleysi landsins og sömuleiðis vera framfylgt af borgaralegum stofnunum á grundvelli borgaralegra gilda.

Þessi viðhorf, ekki síst nauðsyn þverpólitískrar nálgunar á viðfangsefninu, voru ítarlega rædd af þinginu við umræðu um skýrslu mína um utanríkismál á síðasta ári og raunar við nokkur önnur tilefni. Þá kom glöggt fram að í sölum Alþingis var breið samstaða um nálgun af þessu tagi meðal þingmanna allra flokka. Málið var sömuleiðis reifað af minni hálfu á vettvangi utanríkismálanefndar. Ég lofaði því þar og sömuleiðis við umræður hér á þingi að áður en tillagan kæmi fram yrði hún óformlega reifuð við fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á þinginu og við það hef ég staðið. Þessi tillaga var því skoðuð af fleiri augum en mínum áður en hún var í gadda slegin og fram sett hér í þinginu.

Tillagan felur í sér að það verði skipuð nefnd 10 þingmanna samkvæmt tilnefningum frá öllum þingflokkum og að hlutverk hennar verði að fjalla um og gera tillögur um stefnu sem tryggir þjóðaröryggi Íslands. Eins og ég sagði áðan er tekið skýrt fram að sú vinna á að fara fram á grundvelli herleysis.

Tekið er fram í skýrslunni að við mótun stefnunnar á nefndin að taka mið af áhættumatsskýrslu fyrir Ísland, sem eins og ég sagði áðan kom út árið 2009, stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum okkar Íslendinga.

Í greinargerð eru líka talin upp ýmis verkefni. Þau eru ýmist ættuð úr áhættumatsskýrslunni eða umræðunni héðan úr þinginu, en það er jafnframt tekið skýrt fram að nefndin geti tekið hvaðeina það undir sem má segja að tengist þjóðaröryggi og hún sammælist um að ræða skuli. Þannig eru nefndinni, að því leyti til sem upphaf hennar má rekja til mín, gefnir vængir til að fljúga eftir því sem hún sjálf telur réttast.

Ég hygg að vilji flestra standi til þess að hraða þessari vinnu eins og kostur er. Þó vil ég að taka það skýrt fram að hraðinn má ekki vera á kostnað gæðanna. Ég geri þá ráð fyrir því í þeirri tillögu sem ég legg hér fyrir þingið að það væri æskilegt að nefndin skili sínu verki í júní 2012. Næsta stig vinnuferlisins yrði þá samkvæmt þingsályktunartillögunni að utanríkisráðherra leggi fram tillögu að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland fyrir Alþingi.

Ég vil líka segja það, frú forseti, þó að ég viti að það sé blæbrigðamunur á stefnu einstaklinga og stjórnmálahreyfinga gagnvart ýmsum veigamiklum þáttum í utanríkisstefnunni sem lúta að öryggis- og varnarmálum, að ég á ekki von á öðru en að um flesta burðarþætti stefnunnar verði gott sammæli hér í Alþingi.

Ég rökstuddi það í upphafi máls míns hví ég teldi tímabært að ráðast í þverpólitíska stefnumótun af þessu tagi. Það má færa fyrir því dýpri rök sem vel má flytja hér. Okkur er öllum mætavel kunnugt að skilningur á öryggi þjóða hefur verið að þróast og hann hefur í reynd tekið stakkaskiptum frá lokum kalda stríðsins. Í stað þess að byggja eingöngu á hervörnum byggja flestar þjóðir í okkar heimshluta öryggisstefnu sína á miklu víðfeðmara öryggishugtaki en áður. Það nær ekki aðeins yfir hefðbundnar varnir heldur tekur í vaxandi mæli yfir ýmsar annars konar ógnir sem geta steðjað að innra öryggi ríkja. Þessara ógna sjáum við getið nánast dag hvern í fregnum fjölmiðla hvaðanæva að úr heiminum.

Hér skiptir máli fyrir okkur og aðrar nærþjóðir að hinar hefðbundnu hernaðarógnir sem voru áður í kastljósi þess viðbúnaðar sem flest ríki í okkar heimshluta höfðu, og yfirtók raunar allt annað á tímum kalda stríðsins, eru ekki fyrir hendi í þeim mæli sem áður var. Þó er auðvitað vert að undirstrika það að vitaskuld geta veður skipast skjótt í lofti og það er einmitt eitt sem ber að ræða og eitt af því sem sömuleiðis þarf að hafa viðbúnað gagnvart. En ógnirnar sem bráðastar þykja og sem helst skaka skellum að öryggi borgaranna á okkar tímum eru allt annars konar en hin hefðbundna átakaógn milli járnvæddra herja sem menn stóðu andspænis á sínum tíma eða a.m.k. töldu að þeir gætu átt von á. Það eru t.d. hryðjuverk og skipulögð glæpastarfsemi sem grefur í senn undan öryggi og lýðræði. Það eru netárásir sem heilar þjóðir og stofnanir hafa þurft að sæta og miða beinlínis að því að lama fjarskipti, eins og við höfum eitt tiltekið dæmi af ekki fyrir svo löngu síðan. Þetta felur að sjálfsögðu í sér mikla áhættu. Öll viðbrögð og viðbúnaðargeta í hinum tæknivæddu samfélögum nútímans að ógleymdu hagkerfinu sjálfu hvílir á fjarskiptum. Hraði viðbragðanna hvílir á þeim og skiptir auðvitað mjög miklu máli þegar vá ber að höndum.

Við höfum líka verið kirfilega minnt á það á allra síðustu tímum að yfir jafnvel lönd sem eru vön náttúruhamförum, sem eru vel undirbúin, geta riðið hamfarir af slíkri stærðargráðu að menn hefur ekki órað fyrir því. Við höfum séð að slíkar náttúruhamfarir geta líka leitt til og hafa í sér fólgnar aðrar ógnir, eins og við höfum t.d. séð á síðustu vikum í Japan þar sem gríðarlegar náttúruhamfarir leiddu til bresta í öryggi á sviði fjarskipta, samgangna, orku, auk ógna við heilbrigði fólks. Það gildir ekki aðeins um næsta nágrenni upptaka hamfaranna heldur líka miklu víðar.

Það er líka rétt að segja það að opnun norðurhjarans fyrir nýjum skipaleiðum og möguleikanum á nýtingu náttúruauðlinda eins og olíu og gass á þessum nýju norðlægu svæðum — eins og er að finna norður af Íslandi og við höfum reyndar rætt í fyrri þingmálum sem ég hef reifað hér í dag — getur líka falið í sér nauðsyn á að geta gripið til varna ef stór, mikil og óvænt óhöpp eða slys ber að höndum sem geta haft í för með sér vá fyrir viðkvæm vistkerfi, mannlegt samfélag, og jafnvel efnahag heillar þjóðar. Við höfum reyndar nýlega séð slík óhöpp verða fyrir augum heimsins. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að menn mundu þurfa lengi um sárt að binda á hinum ísköldu norðurslóðum ef það kynni að gerast á komandi áratugum að þar yrði einhverju sinni slys af stærðargráðunni sem varð í Mexíkóflóa á síðasta ári.

Gagnvart öllum þessum váboðum, hugsanlegum inn í framtíðinni, sem ég hef hér nefnt og mætti þó telja miklu fleiri, þurfa stjórnvöld að hafa uppi sterkar varnir og tryggan viðbúnað til að tryggja öryggi sinna borgara. Það er vitaskuld skylda okkar sem æðstu samkundu þjóðarinnar að marka skýra stefnu fyrir framkvæmdarvaldið í því efni. Gegn ógnum af þessu tagi, auk hinna hefðbundnu, þarf sérhver þjóð að búa sig undir, ekki bara með traustum undirstöðum á sinni heimaslóð heldur ekki síður með alþjóðlegum viðbúnaði.

Margar þeirra nýju ógna sem ég hef nefnt hér eru þess eðlis að besti viðbúnaður felst ekki aðeins í undirbúningi á heimaslóðinni, heldur líka með því að þætta við hann sterk tengsl og aðgang að atgervi, reynslu og eftir atvikum búnaði miklu stærri þjóða eða þjóðabandalaga í gegnum trausta samninga um samstarf. Þetta kallar þess vegna á skýra stefnu um þjóðaröryggi á sem flestum hugsanlegum sviðum til þess að við sem þjóð getum verið sem best undirbúin ef vá steðjar að.

Frú forseti. Við erum herlaus þjóð, Íslendingar, og við stefnum að því að vera svo um aldur og ævi. Þrátt fyrir dvínandi líkur á hernaðarátökum í okkar heimshluta í kjölfar endaloka kalda stríðsins verðum við þó, eins og ég sló varnagla gegn í upphafi framsögu minnar, að gera okkur grein fyrir því að veður geta skipast í lofti. Við þurfum í því efni eins og öðrum að hafa nauðsynlegan viðbúnað til viðbragða. Eitt af hlutverkum þeirrar nefndar sem ég er hér að reifa verður að fara rækilega yfir með hvaða hætti við gerum það best.

Við sem sitjum í þessum sölum dag hvern þekkjum söguna. Við vitum vel að eftir stofnun lýðveldisins auðnaðist okkur Íslendingum ekki að skapa sátt um þennan grundvallarþátt í utanríkisstefnu landsins og það verður að segjast eins og er að djúpstæð átök hafa einkennt umræður um fyrirkomulag öryggis- og varnarmála hér á landi undanfarna áratugi. Núna, þegar tæp fimm ár eru liðin frá brottför varnarliðsins frá Íslandi, blasir við gjörbreytt öryggisumhverfi sem þjóðaröryggisstefnan þarf að taka mið af og um leið, frú forseti, og ég legg áherslu á það, hafa skapast skilyrði til þess að ná víðtækri sátt í málaflokknum. Fyrir því er hægt að færa mörg rök. Í fyrsta lagi má nefna að framkvæmd varnarstarfsins við Bandaríkin er gjörbreytt frá því sem áður var. Herinn er farinn og á grundvelli varnarsamningsins liggur þess í stað fyrir útfærð skuldbinding Bandaríkjanna til að koma Íslandi til varnar ef hernaðarógn steðjar að landinu að nýju.

Í öðru lagi er alveg ljóst að orðið hefur mjög ör þróun í öryggis- og varnarsamstarfi á vettvangi Atlantshafsbandalagsins sem er í dag pólitískt bandalag ekki síður en varnarbandalag. Það verður að segjast að á vettvangi þess eru stigin mjög stór skref til nánara samstarfs við Rússland, sem á tímum kalda stríðsins var auðvitað sá ógnvaldur hulinn sem við óttuðumst að einhvern dag gæti birst út úr þokunni og viðbúnaður okkar miðaðist gegn. Það má segja að þetta víðtæka samstarf sem endurspeglast í nýsamþykktri grunnstefnu bandalagsins hafi breyst mjög frá því að það var hvað umdeildast hér á landi.

Þá er rétt að nefna það að í þriðja lagi hafa íslensk stjórnvöld aukið grannríkjasamstarf við Noreg, Danmörku, Bretland og Kanada um öryggissamvinnu á friðartímum með það markmið að auka öryggi og stöðugleika á Norður-Atlantshafi. Norðurlöndin hafa nýlega styrkt þetta samstarf sitt á sviði öryggis- og varnarmála, ekki bara með framlagningu Stoltenberg-skýrslunnar sem vísar mjög inn í framtíðina heldur ekki síður með samstöðuyfirlýsingunni sem utanríkisráðherrar Norðurlandanna samþykktu á fundi sínum í Helsinki 5. apríl.

Í fjórða lagi hefur öryggissamstarf Íslands og Evrópusambandsins aukist verulega á síðustu árum, bæði með þátttöku Íslands í friðargæsluaðgerðum ESB og líka í pólitísku samstarfi ríkjanna á vettvangi EES-samstarfsins. Starf Evrópusambandsins á sviði öryggis- og varnarmála fellur ákaflega vel að áherslum Íslands eins og t.d. hvað mannréttindi varðar og sömuleiðis starf að þróunarmálum og borgaralegri friðargæslu.

Í fimmta lagi má svo nefna það sem ég rakti í upphafi míns máls að öryggisumhverfið hefur gjörbreyst eftir lok kalda stríðsins. Þar vil ég ekki síst vísa til þess sem kannski má kalla eina merkustu niðurstöðu áhættumatsnefndar utanríkisráðuneytisins árið 2009, að það eru engar vísbendingar um að hernaðarógn steðji að Íslandi í náinni framtíð á meðan aðrar hættur og ógnir eins og mengun, netárásir, tölvuglæpir, skipulögð glæpastarfsemi eða hryðjuverk og ýmislegt fleira sem ég rakti hér á fyrri stigum framsögu minnar, getur borið að með þeim hætti að við verðum að horfa á það sem part af okkar veruleika.

Á allar þessar breytingar, frú forseti, þarf Ísland að leggja mat og Ísland þarf að bregðast við þeim á grundvelli þess mats sem með skýrri stefnu, áætlunum, viðeigandi viðbúnaði og nánu samstarfi við nágrannaríki og sömuleiðis á vettvangi fjölþjóðlegra stofnana. Það er markmiðið með þessari tillögu.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar þessari umræðu er lokið verði tillagan send hv. utanríkismálanefnd til umfjöllunar.