139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli mínu var alveg ljóst að þegar þjóðaröryggi er undir þarf náttúrlega að taka tillit til alþjóðlegra tengsla sem við höfum stofnað og þeirra skuldbindinga sem við höfum axlað. Að sjálfsögðu varðar þetta líka hefðbundnar varnir sem við þurfum að reifa og ræða með hvaða hætti við stöndum best undir þeim. Utanríkisráðuneytið og utanríkisráðherrann í forsvari þess mun áfram fara með þau málefni sem tengjast Atlantshafsbandalaginu. Sömuleiðis fer utanríkisráðuneytið að sjálfsögðu með samninga við önnur ríki, ekki síst þá samninga sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni og skipta verulega miklu máli til að tryggja öryggi okkar á komandi tímum. Tillagan er því flutt af réttum ráðherra. Verksvið nefndarinnar er að leggja til hugmyndir og eftir atvikum tillögur og úr þeim verður unnið af utanríkisráðherra ef til þess kemur að einhver munur verður á afstöðu innan nefndarinnar. Þetta er klárlega utanríkismál og fellur þar af leiðandi undir það ráðuneyti.