139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er sannarlega rétt hjá hæstv. ráðherra að utanríkisráðherra, eins og ég sagði áðan, fer með fyrirsvar við alþjóðasamtök og Atlantshafsbandalagið. Ég er reyndar ágætlega ánægð með að hæstv. utanríkisráðherra fari með það en ekki félagi hans úr ríkisstjórnarsamstarfinu í innanríkisráðuneytinu vegna þeirra skoðana sem hann hefur á Atlantshafsbandalaginu. Mér finnst þetta samt ekki skýrt vegna þess að hér er ekki fjallað sérstaklega mikið um samskipti við önnur ríki eða við Atlantshafsbandalagið, Sameinuðu þjóðirnar eða annað sem fellur undir utanríkisráðuneytið. Hér er fjallað um hvernig tryggt verði að nægileg þekking sé til staðar hjá borgaralegum stofnunum um þjóðaröryggismál, ég nefni það, og ógnir og hættur á borð við mengunarslys, farsóttir, skipulagða glæpastarfsemi, netglæpi eða efnahagsþrengingar sem allt er á verksviði hæstv. innanríkisráðherra, held ég, ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar sem hæstv. innanríkisráðherra fer nú með fyrirsvar fyrir. Reyndar er það náttúrlega þannig að ríkisstjórnin hefur ekki klárað þessi mál. Ég velti því fyrir mér hvort ástæðan fyrir því að þingið eigi að móta þessa þjóðaröryggisstefnu sé sú að hæstv. ráðherrar geti ekki komið sér saman um hvernig haga skuli þessum málum innan stjórnskipunarinnar. Ég velti því upp.

Það vakti líka athygli mína í Fréttablaðinu í morgun að haft er eftir hæstv. utanríkisráðherra að í þessu sé allt undir, þar á meðal aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Það vekur hjá mér ugg vegna þess að ég er ósammála fullyrðingu hæstv. utanríkisráðherra sem þarna kemur fram, og mun fara yfir það í ræðu minni, að verulega hafi dregið úr hernaðarumsvifum á norðurhveli jarðar, m.a. í nágrenni Íslands. Ég tel að því sé akkúrat þveröfugt farið (Forseti hringir.) og vil þá vita af okkur innan Atlantshafsbandalagsins þar sem í 5. gr. sáttmála þess segir að (Forseti hringir.) árás á einn sé árás á alla. Ég sef betur á nóttunni vitandi af okkur þar innan borðs.