139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig sannarlega að hv. þingmaður sefur vel á nóttunni. Það gerir nú (Gripið fram í.) utanríkisráðherra líka þó að hann sofi ekkert sérstaklega betur vegna þess að kanadískar þotur séu staddar hér núna. Eins og hv. þingmaður man hefur jafnvel verið ágreiningur um veru flugvéla við loftrýmisgæslu innan flokks hv. þingmanns.

Ef hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að vitlaus ráðherra flytji málið er það sjónarmið sem hún getur komið á framfæri þegar málið verður rætt í utanríkismálanefnd. (Gripið fram í.) Ég er henni ósammála eins og ég gat um í andsvari mínu áðan.

Hv. þingmaður vísar til þess að í Fréttablaðinu í dag hafi komið fram að ég hafi sagt að allt væri undir. Það er svo. Nefndin getur tekið hvaðeina til umræðu, eins og ég gat um í framsögu minni og sömuleiðis í greinargerðinni, ef hún telur það þarft og rétt. Þegar ég útskýrði tillöguna á fyrstu stigum hennar í umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál gerði ég þetta einmitt að umræðuefni og vísaði til þess að í viðræðum í slíkri nefnd mætti ræða ýmislegt sem ágreiningur er um í íslenskum stjórnmálum og þess vegna leysa með fullmótaðri stefnu. Ég tók síðan skýrt fram í ræðu minni áðan að ef svo færi að ágreiningur yrði um tiltekin mál mundi utanríkisráðherra leggja fram tillögu á grundvelli þess sem fram kæmi og sammæli væru um en að öðru leyti því sem hann teldi best og réttast fyrir sitt land. Ég vil taka undir með hv. þingmanni, að ég er þeirrar skoðunar og minn flokkur að Ísland eigi að vera í Atlantshafsbandalaginu.